138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:16]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. fjármálaráðherra nefndi í andsvari áðan við hv. þm. Illuga Gunnarsson að þetta væri allt miklu auðveldara ef við værum að semja við okkur sjálf, en því miður væri sú ekki staðan. Hins vegar virðist mér vera þetta þannig, og ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður getur tekið undir að það hafi verið hluti af því sem kom fram í ræðu hans, að Bretar og Hollendingar séu í þeirri stöðu að þeir séu að semja við sig sjálfa, þ.e. þeir taka einhverja ákvörðun um hvað þeim er þóknanlegt, tilkynna Íslendingum það og svo er þinginu sagt að við, Íslendingar, höfum ekki getað náð fram hinu eða þessu og munum ekki geta það, vegna þess að þrátt fyrir að það sé margbúið að biðja Hollendinga og Breta, segi þeir að það sé ekki til umræðu, þ.e. Bretar og Hollendingar ákveða einhliða hvernig samninga þeir vilja sjá og svo er þetta einfaldlega spurning um að láta Alþingi samþykkja það. Þetta hafa því ekki verið tvíhliða viðræður. Hvernig stendur á því þegar staða okkar lagalega er þrátt fyrir allt býsna góð? Hvers vegna hafa ekki farið fram raunverulegar tvíhliða viðræður? Af hverju (Forseti hringir.) eru Bretar og Hollendingar að semja við sig sjálfa?