138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:25]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni og tek sérstaklega undir þau orð að það sé mikilvægt að ræða þetta mál, vegna þess að við upplifum það aftur og aftur í þessu flókna máli að fólk áttar sig kannski ekki á hversu alvarlegt það er. Ég held að margir þingmenn meiri hlutans hafi ekki enn áttað sig á alvarleika þess. Það er ágætt að setja málið í samhengi við það, eins og gert var hér í ræðu, um hversu mikla fjármuni er að ræða. Við erum nefnilega að tala um hátt í 100 milljónir í vexti á hverjum einasta degi.

Mig langar til að spyrja þingmanninn út í þá staðreynd, bæði orð Sigurðar Líndals lagaprófessors og Ragnars H. Halls hæstaréttarlögmanns um að engin raunveruleg úttekt liggi fyrir um það hvort efni lagafrumvarpsins eins og það liggur fyrir þinginu samrýmist stjórnarskrá lýðveldisins. (Forseti hringir.) Ég held að þetta sé gríðarlega (Forseti hringir.) mikilvægt atriði sem við þurfum að fara yfir og mig langar til að spyrja þingmanninn út í það.