138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:41]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Í kvöldfréttum lét hæstv. fjármálaráðherra liggja að því að það sem hastaði og setti pressu á þetta mál sem hér er til umræðu væri hætta á því að lánshæfiseinkunn og mat Íslands mundi lækka ef ekki væri gengið frá málinu hið snarasta.

Ég vildi kanna hvort hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson væri sammála mér og gæti tekið undir með mér um að ríkisstjórninni er ákveðinn vandi á höndum. Hún fullyrti það í sumar að ekkert gæti orðið af endurreisn íslenska bankakerfisins nema við Íslendingar værum búnir að samþykkja að fullu Icesave-samkomulagið. Nú hefur raunin orðið önnur. Nú þegar hafa kröfuhafar eignast Íslandsbanka, gamla Glitni, og samkvæmt fréttum ríkissjónvarpsins stefnir allt í að kröfuhafar eignist einnig gamla Kaupþing, sem nú heitir Arion banki. Með öðrum orðum, mikið hefur gengið eftir af þeim áætlunum sem menn gerðu og er þetta reyndar eitt af því sem ríkisstjórnin er hvað ánægðust með. En þetta gerðist án þess að Icesave-samkomulagið væri samþykkt.

Jafnframt hefur ríkisstjórnin haldið því fram að það væri útilokað fá lán hjá Norðurlöndunum nema Icesave-samkomulagið væri frágengið. Það kom í ljós að Norðmenn hafa lýst því yfir að lán frá þeim sé tilbúið til útgreiðslu. Ríkisstjórnin lýsti því yfir að ekki gæti orðið af frekara samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn nema búið væri að ganga frá Icesave-samkomulaginu. Það reyndist einnig rangt. Nú kemur ríkisstjórnin eina ferðina enn og segir: Ef ekki verður gengið frá þessu hið snarasta mun lánshæfiseinkunn Íslands lækka, eða miklar líkur eru á því.

Ég vil gjarnan heyra skoðun hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar, ef mögulegt er, frú forseti, á því að hætta sé á því að lánshæfismat á löndum sem búa við miklar skuldir muni lækka, m.a. vegna þeirra atburða sem orðið hafa að undanförnu í Dúbaí. Getur hv. þingmaður tekið undir með mér um að það (Forseti hringir.) er býsna bratt hjá hæstv. fjármálaráðherra og öðrum í ríkisstjórninni að koma eina ferðina enn með hótanir á (Forseti hringir.) Alþingi eftir að svo margt hjá þeim hefur farið með öðrum (Forseti hringir.) hætti en þau ætluðu?