138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:54]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er svo, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, að það hefur komið í hlut stjórnarandstöðunnar að halda á lofti hagsmunum Íslands í þessu stóra máli. Það hefur komið í hlut stjórnarandstöðunnar að benda á alla þá galla sem fram hafa komið og þeir eru enn að koma fram. Það hefur allt komið frá stjórnarandstöðunni eða aðilum úti í bæ sem fylgjast mjög grannt með málinu. Það hefur ekki komið frá stjórnarmeirihlutanum, því miður. Vitanlega er það algerlega ólíðandi þegar Alþingi samþykkir lög sem ber að kynna fyrir ákveðnum aðilum og þeir aðilar segja svo við kynninguna, frú forseti: Þetta er ekki nógu gott, þessum lögum þarf að breyta. Er þá sjálfgefið að farið sé inn á Alþingi og lögum breytt vegna þess að erlendar þjóðir óska þess eða krefjast þess að lögum sé breytt? Nei, það er ekki eðlilegt. Við samþykktum ákveðin lög og þau eiga vitanlega að standa. Ég sæi breska og hollenska þingmenn í anda ef Íslendingar færu að senda skilaboð inn í þeirra þjóðþing um að þessi og þessi lög séu ekki nógu góð og þeim verði að breyta vegna þess að Íslendingar telji (Forseti hringir.) þau ekki nógu góð. Þetta er fáránlegt, frú forseti.