138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:19]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Þá er tekið enn á ný til við þetta mikilvæga mál sem er Icesave-frumvarpið, skuldbindingin mikla. Ég hef rætt þetta nokkuð úr þessum ræðustól og þá geri ég ráð fyrir því að hæstv. fjármálaráðherra sé m.a. að tala um mig þegar hann svo smekklega í fréttunum í sjónvarpinu í gær, bæði í kvöldfréttum sjónvarpsins kl. 7 og líka kl. 10, segir stjórnarandstöðuna reyna að þvælast fyrir. Þetta finnst mér mjög smekklegt komandi úr munni þess hæstv. ráðherra. Ég hef reyndar velt því fyrir mér hvað stjórnarandstæðingurinn Steingrímur J. Sigfússon hefði sagt um ummæli ráðherrans Steingríms J. Sigfússonar. Það væri dálítið gaman að geta einhvern veginn spólað tímanum þannig að hægt væri að fá viðbrögð við þessu en ég ætla aðeins að giska á það.

Ég hugsa að hv. þingmaður í stjórnarandstöðu, Steingrímur J. Sigfússon, hefði notað dálítið stór orð og ég held að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon í stjórnarandstöðu hefði hækkað róminn. Ég held að hv. þingmaður í stjórnarandstöðu, Steingrímur J. Sigfússon, hefði býsnast heil ósköp yfir þessum ummælum vegna þess að honum hefðu þótt þau mjög ómakleg, ósmekkleg og óviðeigandi. Ég ætla þá að gera þessi ímynduðu viðbrögð hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar í stjórnarandstöðu að mínum vegna þess að mér finnst þetta vera afskaplega ómaklegt. Og ég spyr hæstv. ráðherra þegar hann segir svo skemmtilega að stjórnarandstaðan sé að þvælast fyrir: Fyrir hverjum erum við að þvælast? Erum við að þvælast fyrir Bretum og Hollendingum? Já, sennilega erum við að því. Við erum sennilega að þvælast fyrir Bretum og Hollendingum í þessu máli og þá spyr ég hæstv. fjármálaráðherra: Er eitthvað að því? Er eitthvað að því að við þingmenn í stjórnarandstöðu, sem erum lýðræðislega kjörin til að hafa aðhald og eftirlit með framkvæmdarvaldinu, þvælumst fyrir Bretum og Hollendingum þegar við teljum að það sé í þágu íslensku þjóðarinnar? Ég spyr hæstv. ráðherra að þessu.

Á mánudaginn sagði hæstv. ráðherra að það væri ekki hægt að greina frá upplýsingum úr þessum ræðustól en að við vissum þetta allt saman í stjórnarandstöðunni vegna þess að það væri búið að segja okkur frá þessu á fundum, öllum þessum leyndarmálum sem þessum stól er ekki treystandi fyrir. Það kom fram í fjölmiðlum í gær að formenn stjórnarandstöðuflokkanna könnuðust alls ekki við að hafa verið trúað fyrir einhverjum óskaplegum leyndarmálum umfram það sem hér hefur verið sagt og hæstv. fjármálaráðherra fór reyndar með beint í fjölmiðlana ef átt var við það að lánshæfismatið væri í hættu. Það er það eina sem búið var að segja við þá eftir því mér best skilst. Þá spyr ég hæstv. fjármálaráðherra: Ætlar hann einhvern tíma að segja okkur frá því hvað það er sem býr hér að baki, af hverju þetta er svo óskaplegt leyndarmál? Hvað veit hann sem við megum ekki vita? Ef hæstv. fjármálaráðherra getur ekki greint frá því héðan úr ræðustólnum þá bið ég hann að greina frá því á þeim fundum sem eru orðnir mjög reglulegir með formönnum flokkanna. Ef ekki má segja frá þessu í ræðustól bið ég hæstv. fjármálaráðherra að segja þá a.m.k. frá því á þessum ágætu fundum þannig að þetta liggi allt saman fyrir. Það er merkilegt að maðurinn sem talaði mest gegn leyndarhyggjunni og reykfylltu bakherbergjunum, skúffusamkomulagi og öllu slíku, það háttalag, meint eða satt, ég ætla svo sem ekki að dæma um það, það er merkilegt að sá sami maður sé farinn að viðhafa þau vinnubrögð.

Þetta minnir mig nefnilega á — ég fór í bíó á sunnudaginn á frídegi þingsins, ég fór með syni mínum í bíó og við sáum Jólasögu Dickens. Allir sem hafa séð þessa mynd og lesið þessa sígildu sögu vita að þar vitja þrír andar aðalsögupersónunnar, það eru andi liðinna jóla, andi þessara jóla og andi jóla framtíðarinnar. Ég gat ekki að því gert en þetta minnti mig dálítið á hæstv. fjármálaráðherra. Ég hvet hann til að taka þessa sögu og láta þennan boðskap aðeins velta um í kollinum á sér vegna þess að það væri fínt að athuga aðeins fortíðina, hvað menn hafa sagt, hvað menn hafa trúað á. Ég hélt að hæstv. fjármálaráðherra hefði trúað á lýðræðið. Ég hélt að hæstv. fjármálaráðherra hefði trúað á mátt stjórnarandstöðunnar. Ég hélt að hæstv. fjármálaráðherra hefði verið sá þingmaður sem barðist einna mest fyrir þessu. Ég man eftir því þegar við vorum að ræða þingsköpin, breytinguna á þingsköpunum. Það mátti ekki draga úr þessum mikilvæga rétti stjórnarandstöðunnar til að hafa uppi málflutning, það mátti ekki gera það. Og líka vegna þess að í fréttunum í gær kveinkar hæstv. fjármálaráðherra sér undan því að við séum að ræða um fundarsköp. Ég ætla að fá að lesa úr frétt sjónvarpsins í tíufréttunum í gær þar sem verið er að ræða meint málþóf, væntanlega. Þar segir hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon, með leyfi forseta:

„En það er ekki við okkur að sakast í þeim efnum heldur endalausar ræður stjórnarandstöðunnar um fundarsköp og, og, og“ — fyrirgefið ég verð að lesa þetta beint upp — „þar sem þau eru í andsvörum við sig sjálf eða þá eru að ræða matarvenjur sínar eða eitthvað annað slíkt.“

Þetta finnst honum vera merki þess að við séum að þvælast fyrir. Það getur vel verið að þetta sé rétt, virðulegur forseti. (Gripið fram í.) Hæstv. ráðherra grípur hér fram í, en þetta kallar hann núna að þvælast fyrir en þá vil ég lesa upp úr ræðu sama einstaklings, þáverandi hv. þingmanns í stjórnarandstöðu, þegar verið var að ræða fjölmiðlalögin, en eins og greint var frá áðan kemst Icesave-málið ekki í hálfkvisti við það hvað fjölmiðlalögin voru rædd, en þá segir þessi sami einstaklingur, þáverandi hv. þingmaður, þegar einhver umræða hafði verið um það hvernig þingfundi ætti að vera háttað, með leyfi forseta:

„Herra forseti. Ég tek undir ósköp sanngjarnar og í raun hógværar óskir um að það verði eitthvað upplýst um þinghaldið, hvað sé fyrirhugað. Nú er klukkan tólf á miðnætti og nýr drottins dagur að renna upp og menn búnir að vera að störfum síðan átta eða hálfníu í morgun á nefndarfundum og síðan samfelldum þingfundum …“

Og seinna í sömu ræðu, með leyfi forseta:

,,Gott og vel, þá vinna menn í samræmi við það en þá er líka eðlilegt að þinghaldið sé með nokkuð reglubundnum eða manneskjulegum hætti þannig að menn fái lágmarkshvíldartíma og annað í þeim dúr.“

Er maðurinn þarna að gera það sem hæstv. fjármálaráðherra kallar að ræða matarvenjur sínar eða eitthvað annað slíkt? Mér heyrist það. Og svo, af því að verið er að tala um að menn séu í andsvörum við sjálfa sig og hvað annað, segir hann hér, með leyfi forseta:

„… það mætti náttúrlega hugsa sér að reyna að fara að standa hér vaktir ef ríkisstjórninni er alvara með að funda dag og nótt þangað til yfir lýkur.“

Þetta er reyndar ágætishugmynd sem við í stjórnarandstöðunni þyrftum kannski að nýta okkur. (Gripið fram í: Það má margt læra.) Það má margt læra og þess vegna hvet ég hæstv. fjármálaráðherra til að líta í baksýnisspegilinn og athuga hvernig þetta var allt saman þegar maðurinn barðist fyrir lýðræðinu.

Virðulegi forseti. Ég sé að tími minn er eina ferðina enn á þrotum þannig að ég óska eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal að verða sett aftur á mælendaskrá vegna þess að ég komst ekki í að ræða það sem ég ætlaði að ræða og það var m.a. afbragðsgrein sem birtist í Morgunblaðinu í morgun um stjórnarskrána og Icesave-samningana, skrifuð af þremur virtum lögmönnum, sem sannar það enn á ný, hæstv. forseti, að það er ekki rétt sem hæstv. fjármálaráðherra segir og hefur sagt þegar hann hefur heiðrað þennan stól með nærveru sinni að það komi ekkert nýtt fram í þessari umræðu. Og ef hæstv. fjármálaráðherra kallar það að við séum að þvælast fyrir þá er ég sem þingmaður stolt af því að vera að þvælast fyrir og ég (Forseti hringir.) skal heita á hæstv. fjármálaráðherra að ég mun þá samkvæmt hans skilgreiningu þvælast eins mikið fyrir og ég mögulega get.