138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:34]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það er kannski rétt að ég upplýsi um það að ég sótti einhvern tíma námskeið í Háskóla Íslands á vegum Róberts Spanós, sem er núverandi umboðsmaður Alþingis, þar sem farið var yfir stjórnsýslu- og upplýsingalögin. Álit hans á þeim þá var að stjórnsýslu- og upplýsingalögin væru í rauninni mjög góð og til margs nýtanleg. Það væri hins vegar ekki farið eftir þeim. Það er náttúrlega alvarlegt mál ef það er enn þá svo að ekki er farið eftir þeim.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að núverandi ríkisstjórnarflokkar hafa talað mjög mikið og mjög lengi um opna stjórnsýslu, lýðræði og opið samfélag. Það er rétt að geta þess að m.a. þess vegna hef ég greitt flokki hæstv. fjármálaráðherra atkvæði mitt í kosningum þótt ég hafi ekki gert það í síðustu kosningum vegna afstöðu flokksins (Forseti hringir.) og afstöðu margra annarra til þessara mála. En menn virðast snúast í afstöðu sinni eftir því hvernig vindurinn blæs (Forseti hringir.) og eftir því hvar þeir sitja. (Forseti hringir.) Afsakið, frú forseti, ég átta mig ekki á hvað ég á mikinn tíma eftir.

(Forseti (RR): Hv. þingmaður á engan tíma eftir. Klukkan er biluð og hv. þingmaður verður að hlíta bjöllu forseta.)

Já, þessi klukka er algerlega í steik og ég óska þess þá að forseti komi skikki á klukkuna ef hún mögulega getur.

(Forseti (RR): Það er verið að reyna það, hv. þingmaður.)