138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:35]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að allir hefðu óskað þess að ríkisstjórn Íslands hefði sýnt meiri kjark í samningaviðræðum við aðrar þjóðir. Ég sagði í fyrri ræðu minni að við hefðum kallað eftir raunsæju og köldu mati. Það hefur aldrei verið efi í huga ríkisstjórnarinnar um að samningarnir væru hagstæðir. Hvað með Ragnars H. Halls-fyrirvarann, þegar við bentum á að þar væru hagsmunir upp á tugi ef ekki hundruð milljarða sem munu falla á komandi kynslóðir? Það var harðlega gagnrýnt. Hvað með það þegar við bentum á að auðlindir þjóðarinnar voru settar að veði? Það var sagt úr ræðustól að það væri einfaldlega ekki þannig. Nú koma færustu lögmenn þjóðarinnar fram og segja einfaldlega að þeir telji að það brjóti gegn stjórnarskránni að fara með málið með þeim hætti sem fram hefur komið. Þeir lögmenn sem komu á fund fjárlaganefndar í gær sögðu þvert á orð hæstv. fjármálaráðherra að málsmeðferðin væri einfaldlega eitthvað sem við mættum alls ekki gera að fordæmi.