138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:28]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir með hv. þm. Höskuldi Þór þegar hann segir að enginn hafi í raun og veru talað um að þetta gæti orðið ríkisstjórninni að falli nema hæstv. forsætisráðherra. Hún hefur oftar en einu sinni gefið í skyn að ef ríkisstjórnarflokkarnir séu ekki þess megnugir að klára þetta mál með þeim hætti sem það liggur fyrir á hverjum tíma, hvort heldur sem það var áður en fyrirvararnir voru settir, eftir að þeir voru settir eða hvernig sem málið er núna, þá geti ríkisstjórnin í raun og veru ekki starfað lengur. Því miður hefur þetta mál ratað í þann farveg. Ég er mjög svekktur yfir því, vegna þess að þingmenn og forustumenn stjórnarandstöðunnar hafa allir lýst því yfir, eins og ég sagði hér áðan, að þetta mál væri af þeirri stærðargráðu að við yrðum að komast úr pólitískum hjólförum í því. Það er mjög grætilegt vegna þess að þegar málið hafði verið tekið frá framkvæmdarvaldinu yfir í fjárlaganefndina náðum við að vinna saman að þessum fyrirvörum í sumar með allt öðrum vinnubrögðum en verið höfðu inni í þinginu. Nefndarmenn í fjárlaganefnd einsettu sér að reyna að vinna að sameiginlegri niðurstöðu sem við gætum barist fyrir. En því miður var það svo að framkvæmdarvaldið tók málið og setti það strax í pólitískar skotgrafir. Það var mjög sorglegt að það skyldi enda með þeim hætti og við skulum standa í þessum sporum hér í dag.

Ég tel að hefðum við staðið öðruvísi að málum værum við ekki í þessum sporum núna heldur hefðum við barist. Við höfum ekkert gert í því að koma sjónarmiðum okkar á framfæri til alþjóðasamfélagsins, eins og ég benti á í ræðu minni hér áðan. Við eyddum fleiri hundruðum milljóna til að sækja um sæti í öryggisráðinu, en örfáum milljónum hefur verið eytt í að kynna þetta mesta hagsmunamál þjóðarinnar. Það er óásættanlegt að mínu mati. (Forseti hringir.)