138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:11]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þetta fer nú að verða svolítið undarleg umræða þegar hv. þingmenn koma hér og lýsa því yfir að þeir hlakki til að eyða nóttinni með hæstv. ráðherrum. En svona verður þetta stundum. Ég velti því hins vegar fyrir mér út af orðum hæstv. utanríkisráðherra að hugsun hans, og væntanlega annarra stjórnarliða, verði alltaf skýrari eftir því sem hann sofi minna. Það er þá kannski einhver von á því, þegar við náum hér undir morgun með stjórnarliðum, að við fáum að heyra hver hin raunveruleg ástæða er fyrir því að við eigum að keyra þessi mál í gegn. Síðan er líka spurning, eftir að hafa skoðað þetta mál og allan þann framgang og ýmislegt annað hjá ríkisstjórninni — ég veit ekki hvort rétt sé að forseti mundi beita sér í því — hvort niðurstaðan sé hreinlega sú að stjórnarliðar hafi fengið allt of mikinn svefn á undanförnum mánuðum. Það gæti kannski skýrt ýmislegt ef þetta er rétt kenning hjá hæstv. ráðherra.