138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:20]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Virðulegi forseti. Enn og aftur velti ég fyrir mér af hverju við þurfum að vera að ræða einmitt þetta mál. Hvernig getur staðið á því að fólki dettur í hug að samþykkja ríkisábyrgð á skuldum einkaaðila, og það eftir á? Þrátt fyrir mikla umræðu og vinnu við málið er flestum grundvallarspurningum þess enn þá ósvarað.

Fyrsta grundvallarspurningin er hvort okkur beri að borga. Henni hefur enn ekki verið svarað. Hvernig stendur á því að flestir þingmenn stjórnarflokkanna vilja endilega að við borgum mörg hundruð milljarða skuld sem við eigum e.t.v. ekki að greiða?

Önnur grundvallarspurning er hvort við getum greitt. Heyrst hafa miklar fabúleringar um svaðalegan hagvöxt í miðri kreppu.

Herra forseti. Ég er ekki hagfræðingur og þegar allt hrundi í fyrra fann ég að þær upphæðir sem voru skyndilega í umræðunni voru ofar mínum skilningi. Hver er í raun og veru munurinn á þremur milljörðum og 10 milljörðum? (Gripið fram í: Sjö.) Ég á hús. Það kostar kannski 50 millj. kr., enga milljarða og ég mun sennilega aldrei sjá milljarð. Hver er munurinn á 100 milljörðum og 200 milljörðum og hvað eru 1.000 milljarðar í raun og veru mikið? Þeir rúmast ekki í heimilisbókhaldi venjulegs fólks.

Hvað eru mörg núll í 1.000 milljörðum? Sem þingmönnum ber okkur að taka upplýsta ákvörðun. Þá verðum við að vita hvað eru mörg núll í 700 milljörðum. Við verðum að skilja þá upphæð og hvað hún þýðir í raun og veru fyrir okkur. Við verðum að setja þessar tölur í samhengi og sjá fyrir okkur fólkið sem borgar tekjuskatta, skólana sem ríkið þarf að reka, börnin sem fá minni eða lakari menntun, sjúkrahúsin sem eru okkur svo nauðsynleg, vegina sem þarf að leggja. Það sem ég skil ekki er hvernig þeim hv. þingmönnum og hæstv. ráðherrum sem hafa ákveðið að greiða þessu frumvarpi sem við ræðum hér atkvæði sitt geta litið fram hjá því að þessum tveimur grundvallarspurningum hefur ekki verið svarað með sannfærandi hætti.

Getur verið, herra forseti, að strútsheilkennið hrjái hv. þingmenn? Strútsheilkennið er það nefnt þegar fólk kýs að stinga hausnum í sandinn frekar en að horfast í augu við óþægilegar staðreyndir. Ég vona að ég móðgi ekki neinn með þessum orðum mínum, herra forseti.

Icesave-málið stendur í veginum fyrir hæstv. ríkisstjórn. Ég skil það mætavel. Hér hangir allt á þessari spýtu, einmitt þessari spýtu. Og við, minni hlutinn í þinginu, stöndum áþreifanlega í veginum með þetta mál í fanginu. Og af hverju erum við hér enn og aftur að ræða um Icesave? Af hverju stöndum við í vegi ríkisstjórnarinnar? Af hverju hleypum við ekki málinu í gegn, látum reyna á að stjórnarflokkarnir hafi í raun meiri hluta fyrir því í þinginu? Um það er ég einmitt alls ekki viss, herra forseti. Það er vegna þess að við, eða a.m.k. ég — ég get auðvitað bara talað fyrir sjálfa mig — hef eftir fremsta megni reynt að skilja þessar tölur og sjá fyrir mér fólkið á bak við þær, fiskinn sem þarf að veiða og tímann fram undan.

Herra forseti. Tekjuskattur tæplega 70.000 Íslendinga mun á hverju ári fara í að greiða bara vextina af Icesave. Í Kópavogi þar sem ég bý sem er næststærsta sveitarfélag landsins búa rétt tæplega 30.000 manns. Á Akranesi búa 6.300, í Mosfellsbæ tæplega 8.500 og í Hafnarfirði 25.800 manns. Samtals gerir það 70.600 Íslendinga. Sem sagt, allur tekjuskattur allra Kópavogsbúa, Skagamanna, Hafnfirðinga og íbúa Mosfellsbæjar fer bara í að borga vextina af Icesave — vextina, herra forseti, bara vextina. Höfuðstóllinn mun standa eftir ósnertur.

Herra forseti. Í vor áttum við þingmenn Hreyfingarinnar óformlegan fund með fulltrúum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Við ræddum við þá áhyggjur okkar af því að við Íslendingar gætum ekki staðið undir skuldum okkar. Þetta var áður en Icesave-málið dúkkaði upp og því voru þær skuldbindingar ekki einu sinni taldar með. „Jú, jú, þið getið borgað,“ sögðu kapparnir. Við efuðumst enn og sögðum að við næðum aldrei að greiða neitt inn á höfuðstól lánanna okkar. „Nei, ekki höfuðstólinn,“ sögðu þeir AGS-bræður, „en þið ráðið alveg við vextina.“

Það er einmitt þetta sem ég óttast, að við verðum föst í vaxtagildrunni, munum aldrei geta greitt skuldir okkar en leggjum allt kapp á að greiða skuldunautum okkar vexti. Á meðan höggvum við í velferðarkerfið.

Nú síðast hefur ríkisstjórnin lagt til að ungbörn fái ekki að njóta þeirrar fæðu sem móðir náttúra ætlaði þeim fyrstu sex mánuðina, eins og Alþjóðaheilbrigðisstofnunin leggur til, sem og landlæknisembættið og Lýðheilsustöð. Hversu langt á þetta að ganga? Hversu lengi ætla menn að halda þessum blekkingarleik áfram?

Nú ræðir norræna velferðarstjórnin okkar, herra forseti, um vegtolla út úr höfuðborginni. Hvenær verðum við farin að tala um einkavæðingu heilbrigðiskerfisins? Eða skólakerfisins? Er það það sem við viljum?

Baráttan heldur áfram. Ég mun standa hér út nóttina og næstu daga ef til þarf vegna þess að ég vil allt til þess gera að þetta mál fari ekki í gegn. Mér þykir afskaplega leitt að þurfa að standa í vegi fyrir ríkisstjórninni en ég get ekki annað.

Rétt áður en ég kom í ræðustól höfðu 20.388 Íslendingar skráð sig á vefsíðu Indefence-samtakanna þar sem þeir skora á forseta Íslands að samþykkja ekki þessi lög. Ef til vill skera þeir og forsetinn okkur niður úr snörunni en kannski ekki, og þann séns er ég ekki tilbúin að taka. Því ætla ég að biðja herra forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá.