138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[03:51]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Illuga Gunnarssyni fyrir ágæta ræðu.

Það sem m.a. hvatti mig til að koma hér upp er umræðan og orðræðan um stjórnarskrána og það sem hefur komið fram áður og ég mun fara yfir í ræðu minni á eftir — ég náði ekki að klára það áðan — hvort við getum sem þingmenn leyft okkur að hafa einhverjar efasemdir um það hvort við séum hugsanlega að brjóta stjórnarskrána. Því langar mig til að spyrja hv. þingmann, hann hefur verið örlítið lengur en ég á þingi, hvort hann kannist við umræður líkar þessari um stjórnarskrána og þá hvaða kröfur hafi verið hafðar uppi varðandi umfjöllun um hana. Þá á ég m.a. við hið svokallaða öryrkjamál.

Þetta er nefnilega ekki í fyrsta sinn, herra forseti, sem spurningar varðandi stjórnarskrána vakna hér í sölum Alþingis en ég held að mjög mikilvægt sé að þingið komi sér upp einhvers konar verklagi þegar slíkar efasemdir koma upp þannig að við þurfum ekki að velkjast í vafa um það að við stöndum við það sem við skrifum undir. Því vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann kannist við þetta.

Ég ætla svo í seinna andsvari að koma aðeins inn á annað mál en þetta er eitt af því sem brennur hvað heitast á okkur þingmönnum í dag, hvort okkur beri ekki að kalla eftir formlegum, skriflegum álitum sérfræðinga varðandi stjórnarskrána.