138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[04:53]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég skal reyna að útskýra þetta mál eins og mér heyrðist það vera. Fyrir fjárlaganefnd komu fjórir lögspekingar. Sá þeirra sem taldi nánast ótvírætt að þetta væri brot á stjórnarskrá var Sigurður Líndal. Það hefur fengist staðfest með grein hans í Morgunblaðinu frá því í gærmorgun að svo væri. Eiríkur Tómasson var ekki sama sinnis en hann hafði miklar efasemdir um eitt atriði í þessu máli og það var að ríkisábyrgðin væri ótakmörkuð í tíma og í umfangi. Það var atriði sem honum leist ekki á þótt hann teldi ekki endilega að það væri brot á stjórnarskránni. Ragnhildur Hjaltadóttir, að mig minnir að hún heiti — (Gripið fram í: Helgadóttir) Helgadóttir, virtist vera nokkuð sama sinnis og Sigurður Líndal hvað varðaði sum atriði málsins en Björg Thorarensen var aftur á móti þeirrar skoðunar að hér væri ekki um brot á stjórnarskrá að ræða. Nú er hér um munnlega skýrslu mína frá þessum fundi að ræða og því kannski ekki rétt að byggja ítarlega á henni. Það var óskað eftir skriflegum greinargerðum (Forseti hringir.) en því var hafnað.