138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[04:59]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Nú er það svo að til forseta hafa komið spurningar sem lúta að stjórnarskrá og þingsköpum og því hvort mögulegt sé að þingsköp hafi verið brotin og þá um leið stjórnarskrá. Þetta eru alvarlegar spurningar. Nú kann að vera að forseti sé orðinn þreyttur og lúinn og langt sé liðið á nótt en þá verður forseti að fá einhvern annan fyrir sig til þess að sitja í stólnum ef forsetinn er ekki fær um að sinna embættisstörfum sínum. Þetta gengur ekki svona, virðulegi forseti.

Þetta mál hlýtur að verða tekið upp í framhaldinu í forsætisnefnd. Þingmenn hafa farið fram á að forseti svaraði því hvort fundinum hafi verið lokað og þar með brotin ákvæði þingskapalaga og stjórnarskrár. Forseti getur ekki setið á forsetastóli og ekki svarað þingmönnum um hvort fundurinn sé orðinn ólöglegur. Þetta gengur ekki, virðulegi forseti, augljóslega ekki. Forseti hlýtur að átta sig á því að þetta mun hafa afleiðingar.