138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

tilhögun þingfundar.

[11:09]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Frú forseti. Ég vil fá að gera grein fyrir atkvæði mínu og í því sambandi segja að hér hefur minni hluti þings, þeir flokkar sem kjósendur höfnuðu í kosningum síðasta vor tekið þetta þing í gíslingu. (Gripið fram í: Höfnuðu?) Hér er skipulagt málþóf í gangi þar sem þingmenn eru meðvitað að gera lítið úr þessum ræðustól, sem ég stend í og er með orðið, takk fyrir það, með skipulögðu málþófi þar sem menn skipta niður ræðutíma og andsvörum í excel-skjölum til að standa vaktina.

Lúkning Icesave er forsenda fyrir því að við getum haldið áfram endurreisnarstarfinu sem við vorum kosin til og við viljum halda því umboði áfram til að geta lokið því verki, takk fyrir. Það er mjög mikilvægt. Er Sjálfstæðisflokkurinn tilbúinn til að láta einskis ófreistað? Erum við að tala um lánshæfismat, erum við að tala um samstarf við erlendar þjóðir, er einhver tilbúinn til að lána Íslendingum peninga? (Gripið fram í: Kynntu þér málið.) Við verðum að ná lúkningu í þessu máli til að geta haldið áfram endurreisnarstarfinu og þess vegna eigum við ekki að taka þing landsmanna í gíslingu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) (Gripið fram í: Við erum hluti af þinginu, Magnús Orri Schram.)