138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:17]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mér er algerlega ofboðið í dag vegna þess að hér var farið af stað í vor með það að markmiði að þetta ætti að vera fjölskylduvænn vinnustaður. Hér er verið að boða annan næturfundinn í röð. Hvers eiga þingmenn að gjalda að hafa þessa ríkisstjórn yfir sér? Hvers vegna kemur forseti Alþingis ekki úr stjórnarandstöðunni? Á næturfundi í nótt var þingpöllum lokað, sem er alger hneisa fyrir hið háa Alþingi því að hér eiga fundir að fara fram fyrir opnum tjöldum.

Mig langar að beina því til forseta Alþingis að það liggi fyrir fyrir kl. 6 í kvöld hvað kostar að hafa Alþingi opið einn sólarhring eins og var hér í gær. Hvað kostar það í starfsmannahaldi þar sem alls staðar er verið að skera niður? Það kostar íslensku þjóðina eitthvað að hafa starfsmenn í húsi sólarhring eftir sólarhring með engum hléum. (Gripið fram í: Hvað kostar að taka upp ...?)