138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:43]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get því miður ekki farið yfir það sem fór fram á þessum fundi í fjárlaganefnd því að ég sat ekki þann fund. Ég sat hins vegar annan fund í forföllum fjárlaganefndarmanns Framsóknarflokksins. En ég hef hins vegar býsna traustar heimildir fyrir því hvað fór fram á fundinum og það er alveg ljóst að þar ber ekki saman orðum og túlkun stjórnarandstöðufulltrúanna og stjórnarfulltrúanna. Til að leysa það mál, hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson, á nefndin að sjálfsögðu að fá skrifleg álit á þessu umfjöllunarefni og þessu deiluefni til að við stöndum ekki hér og túlkum út og suður það sem fram fór á þessum fundi. (HöskÞ: Við bárum fram ósk um að það yrði gert.) Já, hv. þm. Höskuldur Þórhallsson, sem situr í fjárlaganefnd, hefur óskað eftir að það verði gert og ég vona svo sannarlega að við því verði orðið, því að þannig má í það minnsta skýra þann meiningarmun sem hér hefur komið fram.

Varðandi þá umfjöllun sem var á fundinum um stjórnarskrána, það tengist því sem hv. þingmaður sagði áðan að ég hefði staðið nokkuð oft upp úr þessum stóli og það er alveg rétt. Ástæðan er ekki sú að ég hafi endilega sérstaklega gaman af því að standa í ræðustól og tala. Hins vegar er þetta mál þannig vaxið að samviska mín leyfir ekki annað en að ég leggi allt sem ég get í það að breyta því ólukkans frumvarpi sem nú liggur fyrir. Samviska mín leyfir ekki annað, hv. þingmaður. Ég skrifaði eins og aðrir þingmenn undir eið að stjórnarskránni þegar ég tók sæti á Alþingi og ég ætla að gera mitt besta til að virða þann eið. Til að svo geti orðið þarf að fá botn í þetta, það þarf að skýra þennan meiningarmun eða þann ágreining sem er uppi varðandi stjórnarskrána.