138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:35]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Svo undarlegt sem það er þá kom einhver öflugasti rökstuðningur, sem fram hefur komið í umræðunni um þetta Icesave-mál frá byrjun, fyrir því að Ísland eigi að fara pólitíska samningaleið og að dómstólaleiðin sé ófær og kunni jafnframt að vera varasöm, frá hv. þm. Bjarna Benediktssyni. Þann 28. nóvember 2008 sagði hann um Icesave-tillögu þáverandi ríkisstjórnar, með leyfi forseta:

„Ég held að það sé afskaplega mikil einföldun á þessu máli öllu saman að telja í raun og veru að það hafi verið valkostur fyrir íslensk stjórnvöld að standa stíf á lögfræðilegri túlkun og halda henni til streitu, jafnvel fyrir dómstólum, hvort sem það væri á alþjóðlegum vettvangi eða hér heima fyrir íslenskum dómstólum. Ef menn ætla að fara að taka þann slag verða menn líka að vera tilbúnir til að tapa því máli ef á það mundi reyna.“ Og síðar: „Það er alveg ljóst að sú leið sem valin var og sá farvegur sem málið er í núna mun alveg örugglega skila okkur hagstæðari niðurstöðu en við hefðum fengið með því að láta (Forseti hringir.) reyna á rétt okkar og ef við hefðum síðan mögulega tapað þeirri þrætu fyrir dómstólum.“

(Forseti hringir.) Enginn vafi var þarna í huga hv. þingmanns. Hvað hefur gerst?