138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:32]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég var ekki að gera lítið úr ábendingu Seðlabankans eða því sem fram kom í bréfinu 2009. Ég sagði hins vegar að þetta væri nákvæmlega það sama og fram hefði komið í bréfi sem sent var fjárlaganefnd á síðastliðnu sumri og það gerðist ekkert af því sem Seðlabankinn hafði þá spáð, ekkert. Þannig er það, hæstv. forseti, og ég var ekki að gera lítið úr því og geri ekki lítið úr efnahagsástandi íslensku þjóðarinnar.

Svarið við fyrirspurn hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur, hvort ég telji það áhættunnar virði að segja nei við því frumvarpi sem hér liggur fyrir um ríkisábyrgð og reyna að semja við Hollendinga og Breta á nýjan leik, er einfaldlega já. Ég tel það áhættunnar virði fyrir íslenska þjóð að við förum aftur í samningaviðræður og reynum að ná fram (Forseti hringir.) betri samningum en hér liggja fyrir og ekki þessa (Forseti hringir.) ríkisábyrgð eins og hún er hér, ófyrirsjáanleg (Forseti hringir.) og óljós í tímalengd og peningum.

(Forseti (ÁÞS): Beðist er velvirðingar á því að klukkan í ræðupúlti og ljósið eru frosin þannig að hv. þingmaður fékk ekki viðvörun á hefðbundinn hátt í stólnum en forseti gætti að því að þingmaðurinn fengi tilskilinn tíma í andsvari.)