138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

störf þingsins.

[10:50]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það er freistandi að blanda sér í þessa skattaumræðu en ég ætla að geyma það þar til við förum í skattaumræður væntanlega í næstu viku eða hvenær sem það kann að verða. En mér fannst dálítið athyglisvert að heyra þá umræðu sem átti sér stað áðan milli hv. þingmanna Þorgerðar K. Gunnarsdóttur og Þórunnar Sveinbjarnardóttur varðandi tilmælin um að ganga í takt. Það hefur dálítið sterka tilvísun inn í það sem er að gerast í þinginu núna í sambandi við Icesave-málið. Af því tilefni datt mér í hug að rifja upp ágæta greiningu á þessu sem fram kom í þingræðu hæstv. núverandi fjármálaráðherra fyrir einum fimm árum síðan, sem ég ætla að vitna í, með leyfi hæstv. forseta:

„Má ég þá frábiðja mér það að menn komi hér með þau nauðungarrök að þeir séu í liðinu, af því að þeir séu stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar verði þeir að láta sig hafa það. Það er ekki þannig. Það er þvert á móti algerlega öfugt. Menn eru skyldugir til að fylgja sannfæringu sinni. Og hvað er fólgið í stuðningi við ríkisstjórn, að vera stuðningsmaður ríkisstjórnar? Að skrifa upp á hvert einasta mál sem hún flytur? Nei. Aldeilis ekki. Þá hafa menn eitthvað misskilið þetta. Þá verða nýju þingmennirnir að fara aftur á námskeið fyrir nýja þingmenn. Það er ekki það sem fólgið er í stuðningi við ríkisstjórn, að skrifa upp á hvaðeina sem hún gerir. Það eina sem menn lofa þegar þeir taka þátt í því að mynda ríkisstjórn og lýsa sig stuðningsmenn hennar er að verja hana vantrausti.“

Þessi orð eiga vel við í Icesave-málinu, þingmenn sem hafa sterkar skoðanir á því máli geta ekki skotið sér á bak við það að þeir séu í liðinu.