138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

tilhögun þingfundar.

[11:11]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er kominn 4. desember. Við erum með dagskrá fyrir þennan fund og á henni eru 23 frumvörp sem flestöll og eiginlega öll þurfa afgreiðslu fyrir áramót ef þá á ekki að valda vandræðum fyrir hagsmuni lands og þjóðar. Vantar þó inn fjárlagafrumvarpið og fleira sem einnig þarf afgreiðslu.

Stjórnarandstaðan hefur nú undanfarna viku til tíu daga rætt eitt mál í eitthvað á milli 80–90 klukkustundir. (Gripið fram í.) Því miður hefur sá tími nýst illa því að hann hefur að miklu leyti farið í þaulskipulagt málþóf þar sem fyrir fram er ákveðið hver fer í andsvör við hvern án tillits til innihalds óhaldinnar ræðu. Engu að síður gerist það að dag eftir dag og þrátt fyrir þessa þörf fyrir að tjá sig, sem við höfum reynt að koma til móts við, greiðir stjórnarandstaðan aftur og aftur atkvæði gegn því að hér megi standa lengri fundir. Hvernig sjá menn fyrir sér að þetta geti gerst hvort tveggja, að stjórnarandstaðan fái útrás fyrir þörf sína (Forseti hringir.) til að tala en leggist jafnframt gegn því að hér séu lengdir fundir? (Gripið fram í.)