138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:00]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur kærlega fyrir spurningu hennar því að út á þetta gengur málið. Ég hef áður sagt í þessari umræðu að Bretar og Hollendingar virðast vera komnir með löggjafarvaldið í þessu máli, því að hér er komið með frumvarp þar sem ekki má breyta einu einasta atriði, skilyrðislaust og án áskilnaðar skal þetta að fara svona í gegnum þingið. Þar með getum við alveg sagt sem svo að Bretar og Hollendingar séu að setja hér lög fari þetta svona í gegn.

Ég var að benda á að það er búið að framselja dómsvaldið til Breta og Hollendinga og það sem er eftir er framkvæmdarvaldið. Við sjáum nú hvernig framkvæmdarvaldið stendur sig hér á landi, og ég vísa þar í 2. gr. stjórnarskrárinnar, sem ég geng með á mér þessa dagana í Icesave-málinu, sem kveður á um þrígreiningu ríkisvaldsins. Framkvæmdarvaldið í Icesave-málinu hefur komið fram við löggjafarvaldið og þjóðina með þeim ólíkindum að ég efast um að slíkt þekkist annars staðar á byggðu bóli. Það er svo alvarlegt hvernig búið er að halda á þessu máli, eins og t.d. þingmaðurinn benti á, að hæstv. fjármálaráðherra skyldi hafa komið með útdrátt af skjali sem var ekki til. Við erum í milliríkjadeilu við stórþjóðir og framkvæmdarvaldið leggst svo lágt að koma heim í september með eitthvert leyniskjal sem okkur er sagt að sé ekki til. Auðvitað er til fullt af gögnum sem þingmenn fá ekki að sjá, ef þessi samskipti hafa öll byggst á því að þetta séu skjöl sem voru ekki til en ganga sem pappírar á milli. Hvaða rugl er þetta eiginlega? Það er eins og maður sé staddur í miðri martröð. Ég vil hvetja þingmenn til að fara aftur og lesa leynimöppuna sem er í leyniherberginu úti á nefndasviði og ég krefst þess á nýjan leik, frú forseti, að leyndarhjúpnum af þeirri leynimöppu verði aflétt svo fjölmiðlar fái tafarlaust aðgang að þeim skjölum sem eru þar.