138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:19]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður nefndi að stjórnarliðar hefðu haldið því fram oft og títt að hér færi fram málþóf. Í sjálfu sér væri alveg réttlætanlegt að stjórnarandstaða færi í málþóf í svona máli og í rauninni má segja að það sé skylda stjórnarandstöðu að reyna allt sem hún getur til að koma í veg fyrir að það fari í gegn. En það er hins vegar ekki hægt að halda því fram að hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson hafi verið í málþófi því að ég hef fylgst með öllum ræðum hans hér frá upphafi þessarar umræðu og ávallt hefur hann komið inn á ný grundvallaratriði málsins. Ég hef meira að segja litið á ræðu hv. þingmanns á netinu eftir á til þess að glöggva mig betur á því sem þar kom fram.

Eitt af því sem hv. þingmaður hefur reynt að útskýra er að þótt vera kunni að fræðilega sé hægt að skrapa saman peningum fyrir öllum þessum afborgunum, hafi það verulegar afleiðingar. Þetta er eitthvað sem ég held að menn hafi kannski ekki alveg hugsað út í þegar þeir festust í umræðunni um „já eða nei, er hægt að finna þessa peninga eða ekki?“ Jafnvel þótt einhver telji sig geta sýnt fram á að hægt sé að finna þessi pund og þessar evrur og afhenda hér ár eftir ár sem nemur 100 millj. kr. á dag bara í vexti mun það hafa afleiðingar, það mun hafa félagslegar afleiðingar, heilsufarslegar afleiðingar og þar fram eftir götunum.

Getur hv. þingmaður útskýrt aðeins betur hverjar slíkar afleiðingar eru og hvers vegna þær verða, til að mynda varðandi fólksflótta? Af hverju tengist þetta því hvort fólk er tilbúið til þess að búa í landinu eða ekki? Og ef tími gefst til mætti hv. þingmaður gjarnan velta því fyrir sér og útskýra fyrir okkur hvaða áhrif það hefur þegar 100 millj. kr. á dag eru teknar út úr hagkerfinu, því að þær halda ekki (Forseti hringir.) áfram að veltast þar.