138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:45]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal svarið. Ég get svo sem rætt það við hv. þingmann og upplýst að ég mundi gjarnan vilja deila þeirri skoðun með honum að vilja ekki trúa því upp á hv. þingmenn eða hæstv. ráðherra að þetta sé leiðin, að skuldbinda okkur svo við komumst engar aðrar leiðir en inn í Evrópusambandið.

Mig langar samt að velta því upp — af því að hv. þingmaður hélt aðeins áfram með það að væntanlega væri talsverður munur á þessum flokkum, Samfylkingunni og Vinstri grænum, og við þekkjum það af umræðunni um Evrópusambandið og reyndar að nokkru leyti um Icesave líka — hvernig á því standi og hvaða augum hv. þingmaður lítur það að kannski sé jafnræði á milli þessara tveggja stjórnarflokka í því að koma ekki hingað upp og skýra afstöðu sína. Ég get alveg tekið undir það með þingmanninum að þessir hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar Samfylkingarinnar sem hann nefndi hafi talað á mjög skýran hátt um að Evrópusambandið muni leysa öll vandamál okkar og við eigum bara að afgreiða þennan Icesave-samning.

Hæstv. fjármálaráðherra talaði hér um grímulausar hótanir frá aðilum innan Evrópusambandsins. Daginn eftir kom hæstv. forsætisráðherra og taldi að engar hótanir bærust frá Evrópusambandinu þessa dagana. Þá veltir maður því fyrir sér, og langar að heyra álit hv. þingmanns á því, hvort það sé kannski bara best að ýta þessum málum hvoru frá öðru og taka Icesave-málið hreinlega (Forseti hringir.) út úr þessari jöfnu sem menn eru búnir að troða því í, (Forseti hringir.) viðurkenna að vandinn er gífurlegur og að við þurfum að taka málið frá grunni og (Forseti hringir.) skoða það upp á nýtt, ekki í tengslum við önnur mál.