138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:06]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kannski rétt að taka þessum fregnum með ákveðnum fyrirvara. En ef svo er að það sé skoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að þessi spá eða þetta mat þeirra geti gengið upp að gefnum þeim forsendum að menn dragi einfaldlega svo saman seglin í einkaneyslu og samneyslu og fjárfestingu að það geti haft í för með sér þennan myndarlega vöruskiptaafgang, segir það okkur einfaldlega eitt og það er það að lífskjörin eiga að verða afgangsstærð og annað þarf að vera í forgangi. Ef svo er að hægt sé að kalla fram afgang á vöruskiptajöfnuði upp á eitthvað á annað hundrað milljarða króna, er það auðvitað alveg rétt að það er ekki í samræmi við þá reynslu sem við höfum haft. Gleymum því ekki að útflutningsverðmæti sjávarútvegsins á þessu ári er kannski nálægt 200 milljörðum kr. og sjávarútvegurinn er burðarásinn í útflutningnum. Við sjáum því einfaldlega í þessu samhengi, og þá á auðvitað eftir að draga innflutninginn frá til að fá vöruskiptajöfnuðinn, að ef þetta er þannig erum við væntanlega að tala um ótrúlegar tölur.

Það er ljóst af þessu að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gerir ráð fyrir að raungengi íslensku krónunnar verði mjög veikt um komandi ár. Ef við skoðum mat Seðlabanka Íslands í síðasta riti Peningamála bankans kemur skýrt fram að á öllu spátímabili bankans næstu þrjú eða fjögur árin, sem auðvitað er mikilli óvissu háð, er gert ráð fyrir að það verði engin breyting sem heitið getur á raungengi krónunnar. Við erum þá væntanlega að tala um að gengisvísitalan sé í kringum 230 eða svo og gengi evrunnar í kringum 180 kall o.s.frv. Þetta virðist vera sú framtíðarsýn sem allt þetta dæmi á að byggjast á.