138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:21]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir fyrirspurnina. Svarið er sjálfgefið. Auðvitað er þetta engan veginn viðunandi. Það verður að segjast alveg eins og er. Það er merkilegt, og það var ágætt af hv. þingmanni að rifja það upp, að efnahags- og viðskiptaráðherra skuli aldrei hafa komið í ræðustól til að ræða þetta mál. Aftur á móti hefur hann á stundum verið nokkuð málglaður við fjölmiðla og þessi ummæli, sem ég hef reyndar ekki séð enn sjálfur, en hv. þingmaður las upp áðan, eru öll komin úr sama brunni, þ.e. að kasta einhverju fram. Ég get ekki orða bundist um virðingarleysi þessa ópólitíska ráðherra gagnvart störfum Alþingis — þegar hann fullyrðir að þetta muni fara í gegn óbreytt. Mér finnst virðing hans gangvart störfum okkar á Alþingi eiginlega alveg í lágmarki.

Í upphafi, þegar hæstv. ráðherra var ráðinn fyrst, bundu margir vonir við að með því að hann væri ópólitískur ráðherra mundi hann sýna aðeins annan svip. En satt best að segja fór það fljótlega af hæstv. ráðherra. Oft og tíðum hefur mér fundist að ef einhver ráðherra sé með pólitískar skoðanir þá sé það hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra. Hann virðist hins vegar ekki bera þá virðingu fyrir störfum Alþingis sem kjörnir fulltrúar og pólitískir ráðherrar, sem eru þá kjörnir til þess, virðast sem betur fer hafa.