138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[14:21]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta féll vel í mín eyru. Ég þakka hv. þm. Magnúsi Orra Schram fyrir athugasemdirnar. Ég er alveg hjartanlega sammála því að tími sé kominn til að fara þessa leið. Ég hældi landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra í hástert þegar hann kom með 120 kr. skötuselsgjaldið. Það vakti upp vein og væl hjá ákveðnum stjórnmálaflokki á þinginu, en við öðru var svo sem ekki að búast.

Þetta eru sanngjörn atriði og þetta eru breiðir tekjustofnar sem á að greiða gjald af. Einfaldasta leiðin til að ná inn tekjum af þessum auðlindum er að fara þessa leið. Það er ekki farsælt að vera með einhverjar fabúleringar um veiðileyfagjald sem hlutfall af tekjum fyrirtækja enda vitum við öll hvernig hægt er að kokka upp hverjar tekjur fyrirtækja eru þegar kemur að skattinum. Ég mun að sjálfsögðu leggja mitt af mörkum, þá í samvinnu við a.m.k. Samfylkinguna og vonandi Vinstri græna líka, um að vinna þessum hugmyndum frekari farveg, bæði nú fyrir þetta fjárlagafrumvarp sem og í framtíðinni.