138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[14:47]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Þetta var ágætisábending hjá hv. þm. Þór Saari að við reyndum að snerta grasrótina en það er ekki tími til þess.

Það sem ég ætlaði að tala um er í fyrsta lagi fortíðin. Hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir kom hér áðan og ræddi um fortíðina og það var eiginlega dálítið merkilegt því að þögn hv. þingmanns í Icesave-málinu er æpandi. Hún hefur aldrei tekið til máls í því máli og er þó í efnahags- og skattanefnd og er hagfræðingur. Mjög athyglisvert. En hún fór að tala um það að hér hefðu verið lækkaðir skattar þegar síst skyldi og það væri svona ástæða fyrir vandanum að einhverju leyti. Nú vill svo til að þegar skattar voru lækkaðir þá hækkuðu skatttekjurnar. Stundum heyrir maður hjá hæstv. ráðherra að skatttekjurnar hafi hækkað og skattarnir hafi hækkað. Nú er spurningin: Hækkuðu skattarnir eða lækkuðu þeir? Það sem gerðist var að skattstofninn stórjókst einmitt samkvæmt kenningunni og tekjur einstaklinga á Íslandi uxu sem hvergi annars staðar í heiminum en það er kannski slæmt í huga sumra. Þess vegna eru menn sennilega að skattleggja tekjurnar núna til að reyna að minnka þær aftur eða maður gæti haldið það. Það var nefnilega þannig að þetta voru skattahækkanir.

Það eru ótrúlegir gallar í þessu frumvarpi. Það stendur t.d. hérna í 2. gr. í frumvarpinu um tekjuöflun ríkisins, að áfallinn gengishagnað á hverja úttekt á reikningum í innlánsstofnunum af kröfu í erlendum gjaldmiðli skuli færa til tekna. Það getur verið að einhver sé að leggja inn og taka út og leggja inn og taka út og gengið hækkar og lækkar, og þegar það hækkar verður hann að borga tekjuskatt en þegar það lækkar gerist ekki neitt, þannig að hann getur lent í stórum mínus yfir árið. Þetta þarf náttúrlega að skoða miklu, miklu nánar eins og margt af því sem menn eru að gera hér varðandi fjármagnstekjuskattinn vegna þess að fjármagnstekjuskatturinn hefur þann eiginleika að fjármagnstekjur eru oftast nær ekki nema að hluta til tekjur, verðbótaþáttur, verðbætur og gengishagnaður og annað slíkt eru oft og tíðum ekki tekjur.

Í hlutabréfum er áhætta, fjöldi manns er búinn að tapa óhemjufé og það kemur skattinum bara ekkert við, en ef eitthvað hækkar kemur það honum við. Þess vegna er fjármagnstekjuskatturinn ákveðinn 10% en ekki eins og skattur á launatekjur. Í húsnæðiskostnaði er kostnaður af leigu og skattar á húsnæði og annað slíkt sem þyrfti að koma til frádráttar og er reyndar tekið tillit til í þessum breytingum, en þessar breytingar á fjármagnstekjum snúa allar til verri vegar af því að þær taka ekki mið af því að fjármagnstekjur eru yfirleitt ekki tekjur. Og núna t.d. í verðbólgunni undanfarið hef ég ekki heyrt neinn kvarta undan því að maður sem er með 15% vexti í 18% verðbólgu borgi 1,5% í skatt og sé á sama tíma að tapa. Hann borgar skatt af tapinu. Ég ætla ekki að fara mikið í þetta, ég ætla að ræða um helstu breytingarnar, þ.e. breytingar á fjármagnstekjum upp í 15%, það er tekjuskattur, þriggja þrepa skattur, og það er eðlilegt miðað við lífssýn vinstri manna, þá dreymir um að geta skattlagt menn nánast eftir þörfum.

Svo eru hækkaðir skattar á hagnað fyrirtækja og menn gera sér ekki grein fyrir því hve hagnaður fyrirtækja er óskaplega hvikull skattstofn. Það er enginn vandi að láta hann hverfa. Þetta er einn hvikulasti skattstofninn fyrir utan náttúrlega söluhagnað sem menn geta nánast ráðið hvort verður til eða ekki með því hreinlega að selja ekki.

Sjómannaafslátturinn er það eina sem ég er hlynntur. Ég er búinn að flytja mörgum sinnum, frú forseti, frumvörp um að afnema sjómannaafsláttinn við lítinn fögnuð. Hér er loksins eitthvað sem ég er hlynntur, reyndar er tímasetningin mjög merkileg sem sýnir að þetta er hrædd ríkisstjórn, hún er mjög hrædd við yfirleitt alla hluti. Hún tekur ekki á hagsmunum sjómanna, hún ætlar að slást við þá í fjögur ár, gera þetta hægt og rólega. En fæðingarorlof, frú forseti, þó að við séum að ræða hérna skattamál, má ég til með að koma inn á það, meira að segja konur sem eru orðnar ófrískar skulu hljóta skerðingu strax. Þetta er afskaplega merkilegt, að stilla saman fæðingarorlofi og sjómannaafslætti annars vegar, karlastétt og konum, já og foreldrum hins vegar.

Svo er hérna kolefnisskattur. Ég vildi gjarnan að það yrði rætt mjög nákvæmlega, vegna þess að ef menn trúa því að jörðin sé að hitna vegna koltvíoxíðsmengunar, þ.e. ef sú kenning, sem er bara kenning, skyldi nú vera rétt, er mjög mikilvægt að skattleggja kolefni en mér finnst ekki farin rétt leið hérna. Hér er verið að skattleggja lítra af bensíni og olíu, en það ætti að skattleggja kolefnisatómið sem er notað til brennslu og þá verður þetta mjög hreint og klárt.

Hér er stóreignaskattur sem á að gilda í þrjú ár en menn hafa nú reynslu af því að slíkt er framlengt, margir skattar áttu bara að gilda í eitt ár, kvótakerfið átti að gilda í eitt ár t.d. og sitthvað fleira, og margir, margir þættir, tekjutrygging í almannatryggingum átti að gilda í eitt ár og svo er þetta framlengt og framlengt og hættan er sú að þetta verði viðvarandi.

Mönnum hefur dálítið orðið tíðrætt um fátækt fólk. Sumir eru þannig gerðir að þeir hugsa mikið um fátæka fólkið og tekjulága og yrðu sennilega alveg miður sín ef það væri ekki lengur til, þ.e. það fengi sæmilegar tekjur. Menn hafa talað mikið um að tekjuskattskerfið verndi fátækt fólk. Samkvæmt gildandi lögum ætti persónuafslátturinn að hækka upp í 47.471 á mánuði en er hækkaður upp í 44 þúsund og þá eru menn voðalega góðir. En samkvæmt gildandi lögum, sem eru í gildi í dag, mundi lágtekjufólkið borga lægri skatt. Og það er lygi, eða ég veit ekki hvað á að kalla það, ósannindi, við skulum orða það þannig, við skulum hafa þetta dálítið fallegt, frú forseti, af því að þetta meiðir kannski einhverja. En það eru ósannindi að halda því fram að lágtekjufólk sé betur sett með þessari breytingu en með óbreyttum lögum, það er ekki rétt. Hins vegar held ég að flestir séu á því að það þurfi kannski að ná inn meiri tekjum, reyndar kem ég inn á að það er kannski ekki alveg nauðsynlegt.

Tilkynntar hafa verið hugmyndir um fjármagnstekjuskatt og svo er þessi kolefnisskattur sem gefa þau merki út í heim að Íslendingar ætli ekki að standa við samninga, því að það er búið að gera samninga við mörg stóriðjufyrirtæki um að skattarnir séu óbreyttir og það er verið að breyta því. Þetta er dálítið skrýtið allt saman og ég hugsa að menn úti í heimi sem ætla sér að fjárfesta í íslenskri orku, og þeir eru eflaust einhverjir, kippi að sér höndunum þegar þeir fá svona merki, því að þeim er alveg sama hvort þeir fjárfesta á Íslandi eða einhvers staðar annars staðar, það er bara spurning um hvar þetta er hagkvæmt og hvar er staðarvalið gott.

Talandi um fátækt fólk aftur, lágtekjufólk með 200 þús. kr. á mánuði, því miður er fjöldi fólks með þær tekjur. Þessi pakki sem við erum að ræða hérna, þessi þrjú frumvörp, stórauka útgjöld þessa fólks, því að það vill svo til að sá sem er með 200 þús. kr. á mánuði þarf líka að keyra í vinnuna. Hann þarf að eiga bíl og hann þarf að borga bensín og hvort tveggja hækkar. Það er sem sagt verið að hækka á hann álögur hingað og þangað. Það er ekki bara tekjuskatturinn, það eru álögur út um allt sem verða hækkaðar.

Þá kem ég að samanburði við skattlagningu á séreignarsparnað sem við sjálfstæðismenn höfum flutt tillögu um, og það er víst miður, frú forseti, að það skuli hafa verið sjálfstæðismenn sem fluttu þá tillögu. Ef einhverjir aðrir hefðu flutt hana hefði hún örugglega notið meiri velvilja. Það er ekkert í þeirri tillögu sem menn geta í rauninni gagnrýnt. Þarna er ákveðin eign sem ríkið á. Ríkið á fjölda eigna, ríkið á líka mikið af skuldum. Skuldirnar eru náttúrlega þessar þekktu og svo eru það skuldbindingarnar gagnvart B-deild LSR, sem eru upp á 300 eða 400 milljarða. Svo skuldar ríkið út af Tryggingastofnun. Við hættum ekki að borga lífeyri á morgun, við þurfum borga um alla framtíð með Tryggingastofnun og það er gífurleg skuldbinding. En við eigum líka eignir sem eru óskattað fé lífeyrissjóðanna og sérstaklega séreignarsparnaðarins. Hann er sérstaklega góður í þessu skyni af því að honum er haldið algjörlega aðgreindum, hann er eign viðkomandi manns eða erfingja hans. Það er hægt að færa skattinn inn á yfirlitið, greiddur skattur þetta mikill og þar af leiðandi er upphæðin skattfrjáls þegar hún er greidd út. Þetta kemur því ekkert við sjóðfélaga. Ef sjóðfélaginn skyldi vera undir frítekjumarkinu — já, ég ætlaði kannski að gera athugasemd við það, frú forseti, að þetta frumvarp skuli ekki vera rætt samhliða hinum þremur. Ég geri eiginlega mjög alvarlega athugasemd við stjórn fundarins að dagskráin skuli vera sett svona upp. En engu að síður er þetta gert þannig að ef einhver skyldi lenda undir skattleysismörkum eða borga minni skatt þegar kemur að útgreiðslu lífeyrissparnaðarins, séreignarsparnaðarins, getur sá sótt um það að fá persónuafsláttinn sem hann notar ekki endurgreiddan. Það er séð fyrir því líka.

Gagnvart sjóðunum er þetta leyst á mjög snjallan hátt. Þeim er heimilað að gefa út skuldabréf þar sem þeir borga skattinn með skuldabréfi sem verður með gjalddaga á svipuðum tíma og útgreiðslurnar og ávöxtunin getur verið sú sama eins og er hjá sjóðnum sjálfum. Hann verður því ekki var við þetta, hann verður heldur ekki var við það að ríkið tekur til sín þessa eign. Þessi skuldabréf verða framseljanleg og í stöðluðum einingum og gætu jafnvel orðið alveg ágætismarkaðsvara. Ég hugsa að margir mundu vilja kaupa skuldabréf frá lífeyrissjóði af því það er sennilega einn altryggasti skuldari á landinu.

Mér finnst mjög miður, frú forseti, að þetta skuli ekki vera rætt og að stjórnvöld skuli slá þetta út af borðinu, vegna þess að þetta gæfi ríkissjóði 75 milljarða, reyndar í eitt skipti. Við skulum hafa það alveg á tæru að það er verið að nota þessa eign í eitt skipti, hún verður ekki notuð aftur. Hún mundi gefa ríkissjóði 75 milljarða, þ.e. töluvert miklu meira, nánast tvöfalt meira en allt það sem menn eru að leggja hér til. Við mundum komast hjá því að skattleggja löskuð heimili og fyrirtæki landsins á þessu erfiðasta ári sem við okkur blasir, 2010, og strax 2011 verða fyrirtækin og landsmenn, fjölskyldurnar, betur í stakk búin til að taka á sig skattahækkanir ef þær þarf þá. Það getur vel verið að umsetningin verði það mikil á þeim tíma, vegna þess að við skattleggjum ekki eða hækkun ekki skatta, að tekjur af henni gefi ríkissjóði nauðsynlegar tekjur.

Ég mundi jafnvel leggja til að menn lækkuðu tryggingagjaldið. Ég hef verulega miklar efasemdir um tryggingagjaldið vegna þess að það er skattur á atvinnu. Fyrirtæki sem ræður mann með meðallaun upp á 400 þúsundkall, fer að borga 6 þúsund krónum meira út af tryggingagjaldinu til viðbótar við 28 þús. kr. sem það borgar fyrir að hafa manninn í vinnu. Það er sem sagt 34 þúsundkall sem fyrirtækið borgar fyrir að hafa þennan mann í vinnu, það borgar 34 þúsundkall á mánuði fyrir að búa til atvinnu. Þetta er náttúrlega ekki skynsamlegt þegar við þurfum atvinnu út um allt. Það gæfi okkur miklu meira að hafa vinnandi skattgreiðendur heldur en atvinnulaust fólk sem kostar ríkissjóð. Ég bara skil ekki þessa hugsun og vildi gjarnan fá rökstuðning fyrir því af hverju tryggingagjaldið er hækkað.

Það er eitt sem við þurfum að varast, frú forseti, í svona kreppu alveg sérstaklega og það er brottflutningur á fólki. Mannauðurinn er sú auðlind sem er langmest virði. Ég gef lítið fyrir alla hinar auðlindirnar, sjávarútveg og orkuna, raforkuna, ef ekki er mannauður, því að mannauðurinn býr til hinar auðlindirnar. Ef mannauðurinn fer, eins og gerðist í Færeyjum, er mikil hætta á að yngsta og best menntaða fólkið fari af því að það á möguleika á hærri launum erlendis, það fær laun í evrum og dollurum og öðrum myntum sem hafa hækkað mikið í verði og þegar það sér til viðbótar skattlagningu, er mikil hætta á því að þessi mannauður fari. Hvað gerist þá, frú forseti? Við lendum í vítahring vegna þess að skattgreiðendum fækkar, bótaþegarnir sitja eftir, gamla fólkið og öryrkjarnir, þeir fara ekki neitt, og við þurfum sífellt að vera að hækka skattana til að ná endum saman og við það flytja fleiri burt o.s.frv. Við getum lent í óskaplegum vítahring sem við verðum að hindra. Þess vegna vil ég endilega í alvöru, frú forseti, að menn skoði skattlagningu á séreignarsparnað, jafnvel þó að það sé tillaga frá hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins.