138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

255. mál
[16:45]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Eins og frumvarpið hljómar nú er gert ráð fyrir því að það verði til tvær deildir, þ.e. annars vegar A-deild, sem verður ný deild sem tekur á móti tryggingum frá næstu áramótum, og hins vegar B-deild, sem er í raun gamli tryggingarsjóðurinn sem liggur fyrir að muni þurfa að leggja af vegna þess að hann er einfaldlega gjaldþrota eða verður gjaldþrota.

Hámarkstryggingin er í samræmi við þá þróun sem við höfum verið að sjá í löndunum í kringum okkur í Evrópu. Auðvitað er þetta samkvæmt tilskipun, 50 þúsund evrur, og það eykur öryggi sparifjáreigenda. Ég ætla ekki að setja á langa ræðu út af þessu en ég vil samt minna á eitt atriði og það er að um leið og við aukum ábyrgðirnar núna tel ég mjög brýnt að það komi skýrt fram, eins og hefur komið fram hjá hæstv. viðskipta- og efnahagsráðherra, að það er ekki verið að afnema þær tryggingar eða tryggingar á öllum innstæðum sem voru gefnar hér í hruninu. Jafnframt vil ég minna á að nauðsynlegt er að endurskoða það hvernig þjónustutilskipun Evrópusambandsins sem fjallar um fjármálastarfsemi yfir landamæri er háttað til að koma í veg fyrir að hlutir eins og gerðust með Icesave-reikningana geti gerst aftur. Auk þess vil ég fagna því að hámarkstryggingin hafi ekki verið komin í þessa upphæð þegar Icesave-reikningarnir féllu.

Að þessu sögðu ætla ég svo sem ekki að leggja meira út af þessu frumvarpi en eflaust verða gerðar athugasemdir við það í hv. viðskiptanefnd.