138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:00]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir ræðu hans. Í ræðu sinni velti hann fyrir sér, líkt og margir aðrir þingmenn hafa gert, hver væri svona rökhugsunin á bak við afstöðu margra stjórnarliða, að vilja samþykkja þetta mál þrátt fyrir að hafa litla sannfæringu fyrir því og jafnvel svo að maður hefur heyrt að menn virðist trúa því að þetta leysist einhvern veginn seinna meir. Ég hef talið að það hlyti að búa eitthvað þarna undir og það eina sem ég hef fundið í frumvarpinu sem hægt er að taka á og gæti stutt trú stjórnarliða á að þetta leysist einhvern veginn er 4. gr. þar sem lagt er til að 5. gr. laganna orðist á ákveðinn máta, en þar er verið að tala um eftirlit og forsendur fyrir endurskoðun á lánasamningnum í síðasta lagi fyrir 5. júní 2015.

Ég sé síðan í athugasemdum við greinina að þar er vísað í viðmið varðandi skuldaþol íslenska þjóðarbúsins. Þar er fyrsta viðmiðið að hlutfall erlendra skulda þjóðarbúsins af vergri landsframleiðslu fari ekki yfir 240%. Nú held ég að liggi alveg fyrir að þetta hlutfall er komið töluvert hærra en samt virðast menn ætla að láta þetta yfir sig ganga. Telur hv. þingmaður að það sé nægilega mikið hald í þessari grein? Er þetta eitthvað sem hægt er að byggja þessa trú á? Ef hún verður virk, hvað gerist þá? Gerist eitthvað annað en það að menn setjast niður og drekka kaffibolla og standa svo upp, (Forseti hringir.) eða fylgir eitthvað þessari grein?