138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:30]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Út af þessum síðustu orðum hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar ætla ég að leyfa mér að vitna í ummæli hæstv. fjármálaráðherra frá því fyrir fimm árum hér í þinginu. Ég vitna til ummæla frá 19. maí 2004. Hæstv. fjármálaráðherra, sem var þá leiðtogi stjórnarandstöðunnar, sagði, með leyfi forseta:

„Má ég þá frábiðja mér það að menn komi hér með þau nauðungarrök að þeir séu í liðinu, af því að þeir séu stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar verði þeir að láta sig hafa það. Það er ekki þannig. Það er þvert á móti algerlega öfugt. Menn eru skyldugir til að fylgja sannfæringu sinni. Og hvað er fólgið í stuðningi við ríkisstjórn, að vera stuðningsmaður ríkisstjórnar? Að skrifa upp á hvert einasta mál sem hún flytur? Nei. Aldeilis ekki. Þá hafa menn eitthvað misskilið þetta. Þá verða nýju þingmennirnir að fara aftur á námskeið fyrir nýja þingmenn. Það er ekki það sem fólgið er í stuðningi við ríkisstjórn, að skrifa upp á hvaðeina sem hún gerir. Það eina sem menn lofa þegar þeir taka þátt í því að mynda ríkisstjórn og lýsa sig stuðningsmenn hennar er að verja hana vantrausti.“

Þetta ætti að vera umhugsunarefni, hæstv. forseti, fyrir hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sem virðast ætla að láta leiða sig, flestir, í þessu máli af hollustu við formann sinn og af hollustu við ríkisstjórnina, að greiða atkvæði öðruvísi en þeir hefðu gert ef þeir hefðu getað um frjálst höfuð strokið.

Ég ætla að vitna áfram, með leyfi forseta:

„Komi fram vantrauststillaga á Alþingi ber þeim sem eru í stjórnarliðinu samkvæmt reglunum að greiða atkvæði gegn henni eða segja sig frá stuðningi við ríkisstjórnina ella. Svo einfalt er það mál. Þeir hafa hins vegar fullt sjálfstæði til að leggjast gegn hvaða málum sem svo ber undir, einstökum málum sem ríkisstjórnin flytur. Það eina sem þeim ber þá að gera er að láta vita af því að þetta eða hitt málið eða efnisþáttinn geti þeir ekki stutt.“

Hæstv. fjármálaráðherra lýsti þarna ágætlega hvernig stuðningsmenn ríkisstjórnar geta hegðað sér varðandi mál sem þeir styðja (Forseti hringir.) ekki. Það væri óskandi að hv. þingmenn Vinstri grænna mundu hlýða á þessi orð og taka mark á þeim.