138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:41]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er vissulega einstök staða að í frumvarpinu er fullyrt að okkur beri ekki að gera það sem frumvarpinu er ætlað að gera. Í rauninni mætti túlka það sem svo að frumvarpið sjálft segi að óheimilt sé að samþykkja það. Það mætti líta svo á að frumvarpið lýsi því að ekki sé ásættanlegt fyrir þingmenn að gera það að lögum. Hvernig getur það verið ásættanlegt fyrir íslenska alþingismenn að leiða í lög eitthvað sem augljóslega samræmist ekki skuldbindingum okkar, þ.e. að taka á sig þessa gríðarlegu skuldaklafa þrátt fyrir að fyrir liggi, að mati þeirra sem leggja frumvarpið fram, að okkur beri ekki að gera það? Þess vegna segi ég að í þessu máli sannist, betur en í nokkru öðru máli, að engin alvara hafi verið á bak við yfirlýsingarnar um ný vinnubrögð. Ég get varla ímyndað mér betri prófstein á þessar fullyrðingar allar.

Hv. þm. Illugi Gunnarsson hefur nú í kvöld í nokkur skipti viljað vera, skulum við segja, jákvæður á það sem liggur að baki ákvarðanatöku ríkisstjórnarinnar, en þó nokkuð óljós í því að skýra framgöngu ríkisstjórnarinnar með eins konar dulsálarfræði eða hvaða orð það nú var sem hann notaði. Hann er hins vegar afdráttarlaus þegar kemur að fyrirheitunum um breytt vinnubrögð í pólitík. Hann telur að aldrei hafi verið nein alvara þar að baki hjá þessum flokkum. Því miður (Forseti hringir.) óttast ég að hann hafi rétt fyrir sér í því efni.