138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

samskipti ráðuneytisstjóra við AGS.

[12:01]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Í gærkvöldi voru birt á heimasíðunni Wikileaks tölvupóstssamskipti Indriða H. Þorlákssonar, þáverandi ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu, núverandi pólitísks aðstoðarmanns fjármálaráðherra, við starfsmenn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Það var margt athyglisvert í þessum samskiptum en ég vil þó beina sjónum mínum að einu atriði og spyr hæstv. utanríkisráðherra um það.

Í tölvupótssamskiptunum kemur fram að þáverandi ráðuneytisstjóri beinir framtíðartölvupóstssamskiptum sínum við þennan ágæta mann inn á einkanetfang sitt á mac.com. Ég vil spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvort það sé mikið um það að starfsmenn Stjórnarráðsins noti einkanetföng í þeim samskiptum, sérstaklega þegar um er að ræða samskipti við alþjóðastofnanir, ég tala nú ekki um í svona máli sem er stærsta milliríkjadeilan sem Ísland hefur átt í. Hvernig fer með skráningu þessara gagna? Eru þau skráð inn í málaskrá Stjórnarráðsins eins og lög gera ráð fyrir? Eru þessi vinnubrögð með vitund og vilja hæstv. ráðherra í ríkisstjórn Íslands? Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé því sammála sem fram kemur í viðtali við ráðuneytisstjórann fyrrverandi að þessi samskipti sem eru á milli Flanagans hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Indriða H. Þorlákssonar hafi verið á milli þeirra og eigi að vera á milli þeirra. Er ráðherrann sammála því að þessi tölvupóstssamskipti hafi ekki átt að koma fyrir sjónir fleiri en þeirra tveggja? Ég óska eftir að hæstv. utanríkisráðherra (Forseti hringir.) svari mér varðandi þessi atriði.