138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:32]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú er hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra auðvitað frjáls ummæla sinna en ég sakna þess hins vegar mjög að hann hafi ekki tekið meiri þátt í umræðum um þetta mál á þingi þannig að hægt væri að eiga orðastað við hann. Ég hef bent á það ítrekað að hér hafa komið fram sjónarmið, athugasemdir, ábendingar og röksemdafærslur sem varða með mjög sterkum hætti verkefnasvið hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra en hann hefur hins vegar ekki tekið til svara í þeim efnum.

Ég held hins vegar að tilvitnuð ummæli hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra lýsi ákveðnu viðhorfi til þingsins um að það eigi að vera einhvers konar afgreiðslustofnun fyrir ríkisstjórnina og það viðhorf hefur verið gegnumgangandi frá því að þetta mál kom hér inn. Í raun hefur ríkisstjórnin aldrei fallist á neinar tilslakanir, breytingar eða lagfæringar á frumvörpum um Icesave, ekki fyrr en í sumar að ríkisstjórnin áttaði sig á því að hún hafði alls ekki þingmeirihluta fyrir því frumvarpi sem þá lá fyrir. Þá fóru menn í að semja um einhverja fyrirvara og þess háttar en ekki fyrr. Fram að þeim tíma var allur málflutningur stjórnarliða, ráðherra ríkisstjórnarinnar og ekki síst hæstv. fjármálaráðherra á þá leið að allar athugasemdir, tillögur um fyrirvara og þess háttar væru byggðar á misskilningi. Hann hélt því fram að þeim hefði öllum verið svarað með rökstuddum hætti og ítrekaði það í fjölmiðlum og hér inni á þingi þannig að viðhorf ríkisstjórnarinnar hefur verið þetta. Nú hefur ríkisstjórnin greinilega trú á því að hún hafi þingmeirihluta fyrir þessu máli þó að við vitum ekki enn hver sá þingmeirihluti er en það breytir ekki því að þingið hefur enn tök á því að koma að þessu máli (Forseti hringir.) og reyna að laga það eða stoppa, eins og ég og hv. þingmaður vildum auðvitað helst.