138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

atvinnuleysistryggingar o.fl.

273. mál
[16:41]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér mjög merkilegt frumvarp til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar o.fl. og margt mjög jákvætt og merkilegt hefur komið fram hjá hæstv. ráðherra og hv. þingmönnum. Mig langar sérstaklega til að taka undir orð hv. þingmanna Guðmundar Steingrímssonar og Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur að það skiptir mjög miklu máli þegar við ræðum um atvinnulaust fólk, alveg sama á hvaða aldri það er, að rætt sé um það af fullri virðingu og ekki sé verið að ala á samviskubiti á nokkurn hátt hjá því fólki sem er án atvinnu. En eftir sem áður er það óeðlilegt ástand að vera án atvinnu, þannig að við eigum að reyna að gera allt sem við getum til að virkja fólk hvort heldur sem er í atvinnu eða í námi.

Mig langar til að ræða sérstaklega um unga fólkið sem er án atvinnu. Allt of margir, á þriðja þúsund ungmenni eru án atvinnu og því miður virðist það vera svo að þetta unga fólk sé lítið virkt í atvinnuleit sinni. Í þessum hópi ungs fólks er allt of mikill mannauður fólginn til að við látum það liggja heima og gera ekki neitt, við þurfum að vinna með því. Það þýðir voðalega lítið fyrir okkur að koma með tilbúna fullorðinspakka fyrir þetta unga fólk, við verðum að tala við unga fólkið okkar og finna út hvað það er í raun og veru sem það vill. Mörg þessara ungmenna hafa ekki komið sérstaklega vel út úr skólakerfinu og sjálfstraustið er því miður kannski ekki upp á það besta en þannig verðum við líka að mæta þeim. Það skiptir mjög miklu máli að það sem við gerum í þessum málaflokki sé í fullu samstarfi við unga fólkið og það finni fyrir jákvæðri og persónulegri hvatningu frá okkur fullorðna fólkinu sem erum að vinna í þessum málaflokki. Ég hef stundum sagt að það þyrfti nokkurs konar einkaþjálfun í þessum málaflokki. Þau þurfa í raun og veru einstaklingsbundna leiðsögn í gegnum það að koma sér af stað í virkni aftur, það þykir sjálfsagt þegar maður fer á líkamsræktarstöð og ég held að það ætti að vera jafnsjálfsagt í þessu kerfi. Á ensku er gjarnan talað um „coaching“ þegar verið er að tala um það hvernig við leiðum ungt fólk af stað aftur í virkni, og ég held að við þurfum að reyna að nýta einhvers konar slíka einkaþjálfun.

Mikið áhyggjuefni er hversu lágt menntunarstig þessara ungmenna er upp til hópa. Það eru mjög mörg tilboð í gangi, en þegar sjálfstraust manns er kannski ekki upp á marga fiska og maður er óöruggur með sig og þó að tilboðin liggi nánast fyrir framan mann er ekkert voðalega þægilegt að fara og velja. Fólk þarf í raun og veru einstaklingsbundna leiðsögn í gegnum þetta. Í samskiptum mínum við ungt fólk finnst mér að langflestir þessara krakka vilji bara vera venjulegir krakkar, annaðhvort í venjulegri vinnu eða í venjulegum skóla með öðrum ungum krökkum. Þess vegna hef ég ákveðna trú á því að það skipti miklu máli að það sé í gegnum framhaldsskólakerfið eða einhvern anga þess sem við þurfum að vinna að auknu menntunarstigi þessa hóps. Þetta snýst ekki endilega um að fara í framhaldsskóla heldur ekki síður að þegar maður er innan um jafnaldra sína lærir maður ákveðna, venjulega félagslega hegðun og maður nýtur þess að vera í félagsskap og vera félagslega virkur.

Eins og hv. þm. Anna Pála Sverrisdóttir minnist ég hér á mjög merkilegt frumvarp til laga um framhaldsfræðslu sem ég hlakka til að fá til umfjöllunar í menntamálanefnd. Þar er í raun og veru verið að vinna að ákveðinni samræmingu á öllum þeim mörgu námstilboðum sem eru í gangi á vegum atvinnulífsins og kannski þeirra sem eru utan hins hefðbundna menntakerfis og talað er um að í framhaldsfræðslunni fáum við fimmtu stoð menntakerfisins. Þar er einmitt líka talað um samstarf þeirra aðila sem mynda hin ýmsu menntatilboð eins og símenntunarstöðva og framhaldsskólakerfisins. Það sama á í raun og veru við þegar við erum að reyna að hjálpa þessum krökkum inn í nám, það skiptir mjög miklu máli ekki bara að þau fái hjálp til að velja rétta tilboðið heldur að þau fái ákveðinn stuðning í gegnum það að hefja sín fyrstu skref aftur í skólakerfinu, ég held að skipti mjög miklu máli. En þetta er ekki bara það að fara í skóla, það skiptir líka máli, eins og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson minntist á áðan, að vera t.d. í félagsstarfi, vera í sjálfboðaliðastarfi, vinna t.d. í þjónustu við fatlaða. Þar hef ég horft upp á marga krakka, þau eru góð í því, með því að fara með hinn fatlaða inn í hið daglega líf koma þau sjálfum sér heilmikið af stað líka.

En það er fleira sem talað er um í þessu ágæta frumvarpi. Það er mjög gott að gert sé ráð fyrir aðhaldi og hvatningu til handa atvinnulausum við að vera virkir í atvinnuleit sinni. Og ég vil enn og aftur halda á lofti frumvarpi til laga um framhaldsfræðslu því að ég held að þar séu líka mörg tækifæri til að vinna gegn því að tímabundið atvinnuleysi breytist í langtímaatvinnuleysi.