138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

atvinnuleysistryggingar o.fl.

273. mál
[17:02]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka líka fyrir þessa umræðu og hef í rauninni bara eina spurningu til hæstv. ráðherra á þessu stigi þó að álitaefnin séu vissulega fjölmörg. Hún er varðandi þann áætlaða sparnað sem af þessum aðgerðum muni hljótast, talað er um 1.500 millj. kr. og 370 millj. kr. sem menn áætla að spara með því að námsmenn fari frekar inn í vinnumarkaðsaðgerðir sveitarfélaganna á sumrin. Gott og vel. En síðan á að reyna að spara 1.200 millj. kr. með breytingum á hlutabótum. Ég veit ekki hvernig þessi tala er fengin og það verður kannski rætt eitthvað frekar í nefndinni. Ætlunin er að úr þessu komi 750 millj. kr. sem nota á til vinnumarkaðsaðgerða, sérstaklega fyrir ungt fólk, 2.500 manns sem eru atvinnulausir á aldursbilinu 18–24 ára. Þá langar mig að spyrja vegna þess að hér er kannski óljóst hvort þetta markmið næst: Er ráðherrann reiðubúinn að lýsa því yfir að 750 milljónir verði notaðar í aðgerðir af þessu tagi og það verði hafist handa helst á morgun?