138. löggjafarþing — 40. fundur,  7. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:24]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir að koma hér í andsvar við mig því að á tímabili í ræðu minni hélt ég að hann ætlaði að koma hér við hliðina á mér í ræðustól, svo mikið talaði hann við sjálfan sig. En ég ætla að benda hæstv. ráðherra á að það er búið að taka úr sambandi í þessum ræðustól annað l-orð og það l-orð er að finna í hegningarlögunum. Ég hvet því ráðherrann til þess að lesa sér aðeins til um það.

En ég átta mig ekki alveg á því þegar hæstv. utanríkisráðherra vísar í að hæstv. viðskiptaráðherra gefi sér það ekki að þetta frumvarp að lögum því að hann sagði í viðtali við hvorki meira né minna en New York Times 4. desember, með leyfi forseta: Ríkisstjórnin fær frumvarpið samþykkt. Ég skil ekki alveg hvert hæstv. utanríkisráðherra er að fara með því að segja að ég sé að gefa mér eitthvað meira en hæstv. viðskiptaráðherra. Það er alveg hreint með ólíkindum. Ég er búin að gefa mér að þetta frumvarp verði hér að lögum úr því að þingmenn bregða á það ráð að kalla inn varamenn sína eins og gerðist í ESB-umsóknarmálinu. Við vitum að það er búið að ganga á með miklum hótunum eins og gerðist í ESB-málinu. Við þekkjum vinnubrögðin hjá þessari ríkisstjórn og ætla ég jafnframt að minna hæstv. utanríkisráðherra á það að lesa 46. og 48. gr. stjórnarskrárinnar, úr því að hann beitir þingmenn svo mikilli hörku. Í 47. gr. segir:

„Sérhver nýr þingmaður skal vinna drengskaparheit að stjórnarskránni …“

Og í 48. gr. segir:

„Alþingismenn eru eingöngu bundnir af sannfæringu sinni og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum.“

Ég hvet því hæstv. utanríkisráðherra (Forseti hringir.) til þess að láta þingmenn í friði í aðdraganda þessarar atkvæðagreiðslu (Forseti hringir.) svo þeir geti greitt atkvæði með sannfæringu sinni og samvisku.