138. löggjafarþing — 41. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:19]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Hér eru greidd atkvæði um það hvort þessi lög öðlist gildi. Eins og ég hef áður komið að í ræðum hér tel ég að ríkisstjórnin sé að gera hrikaleg mistök. Ég tel að stór hluti meiri hlutans sé að gera þau mistök með bundið fyrir augun. Ekki hefur farið fram áhættumat á þeim skuldbindingum sem þeir eru að taka á sig. Ekki hefur farið fram greining á þeim eignum sem eiga að koma úr þrotabúinu. Menn hafa ekki hugmynd um hvaða eignir standa þar á bak við.

Við höfum krafist þess í fjárlaganefnd að farið verði yfir alla þessa þætti og það er komin viðurkenning á því að ekki hefur verið farið nægilega vel yfir það. Við framsóknarmenn erum á móti þessu máli. Við sjáum enga ástæðu til að samþykkja það og við teljum að það muni stórskaða hagsmuni Íslendinga og verða myllusteinn á þeirri endurreisn sem hér þarf að fara fram. Lánshæfismat Íslands mun hríðfalla. Það er einfaldlega lögmál, virðulegur forseti. Ég segi nei og aftur nei.