138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[12:03]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að við deilum þessum áhyggjum, ég og hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir. Það þarf að skerpa á þessu ákvæði og koma á reglu varðandi framtíðina. Ég nefndi þetta í ræðu minni vegna þess að það var ákveðið að frysta inneignir árið 2008 einmitt til að stofnanir mundu taka betur á og reyna að reka sig innan fjárheimildar á árinu og nýttu sér ekki ónotaðar heimildir til að forðast að fara í eðlilegan niðurskurð til samræmis við aðrar stofnanir. Jafnframt var sú yfirlýsing gefin út strax í júnímánuði og send formlega til allra stofnana að þannig yrði farið með málin. Einnig lá fyrir að skoðað yrði þegar upp væri staðið hvort menn hefðu geymt fjárheimildir vegna einhverra einstakra verka og það yrði þá tekið sérstaklega fyrir í lokafjárlögum fyrir árið 2008 en ekki í fjárlögum ársins 2010.

Í frumvarpinu var gerð tillaga um að setja reglu þar sem menn mættu fara með 4% fjárheimilda yfir á nýtt ár og eiga allt að 10% af veltu sem inneign hjá viðkomandi stofnun. Þessi regla hefur í sjálfu sér ekki verið afgreidd og það hefur ekki verið full sátt um hvort hún sé ásættanleg. Ég held að við hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir séum sammála um að það er ekki hugmyndin að refsa fyrir ráðdeild og það er mikilvægt að menn geti gætt hagræðingar, sýnt aðhald í rekstri og fengið að nýta sér það í sambandi við rekstur viðkomandi stofnunar. Þó er jafnmikilvægt að menn tryggi að annars vegar sé rétt gefið í upphafi og í öðru lagi að menn sinni þeim verkefnum sem viðkomandi stofnun er ætlað. Það þarf að fara vel yfir þetta og það var rétt hjá hv. þingmanni að ég talaði um að sú vinna yrði að ná inn á næsta ár. Ég get ekki lofað því að hún náist fyrir 3. umr. en í lokafjárlögum ætti að koma fram ráðstöfun á því hvað mátti fara á milli áranna 2008 og 2009.