138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[14:40]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var yfirgripsmikil og alveg prýðileg ræða hjá hv. þingmanni. Hann þekkir þessi mál manna best enda búinn að starfa lengi að ríkisfjármálunum, búinn að sitja töluvert mörg ár í fjárlaganefnd.

Ég hef bara eina spurningu sem mér þætti fróðlegt að fá svar við af því að ég veit að ég geng ekki bónleiður búðar til hjá manni sem hefur þessa miklu þekkingu á fjárlögum íslenska ríkisins. Spurningin varðar staðhæfingu sem kom fram hjá hv. þingmanni sem ég hygg að sé rétt. Staðhæfingin var þessi: Á síðustu tíu árum hafa ríkisútgjöldin bólgnað út um 50%. Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hversu stór hluti af þessum 50% varð til undir forustu Sjálfstæðisflokksins?