138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[17:34]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til fjárlaga. Það minnihlutaálit sem við sjálfstæðismenn skilum ásamt Framsóknarflokknum með fyrirvara felur í sér að hægt sé að bæta afkomu ríkissjóðs um 26 milljarða, þ.e. að hallinn á næsta ári fari úr því að vera tæpir 102 milljarðar niður í það að vera tæpir 76 milljarðar. Ég hvet því hv. þingmenn, stjórnarliða, til að kynna sér þetta mjög vel.

Meginþunginn í þeim tillögum sem við flytjum hér er sá að taka svokallaðan ógreiddan skatt í séreignarsparnaði sem mun skaffa ríkissjóði um 75 milljarða. Það mundi líka skila sveitarfélögunum um 40 milljörðum þannig að það hefði mjög veruleg áhrif og mundi að sjálfsögðu skila sér inn til ríkisins til viðbótar því sem kemur inn til sveitarfélaganna.

Þegar menn eru að fjalla um fjárlög ríkisins eða sveitarfélaganna eða bara heimilisins þá geta menn alla jafna gert þrennt, það er að auka tekjur, með því að hækka skatta í þessu tilfelli, draga úr útgjöldum eða selja eignir. Nú er staðan þannig á eignamarkaðnum að ekki er hægt að gera mikið þar. Menn munu því auka skattana og draga úr útgjöldum.

Ég hef verulegar áhyggjur af áformum ríkisstjórnarinnar um skattbreytingarnar sem verið er að fara í núna. Það kemur reyndar fram í minnihlutaáliti okkar að þær eru gerðar með mjög skömmum fyrirvara af því að þetta eru mjög miklar breytingar. Nú ætla ég ekki að fara út í pólitíska umræðu um það hversu skynsamlegt það er að gera þessar breytingar en ég tel stórhættulegt að gera þær með svona stuttum fyrirvara. Ég hef mestar áhyggjur af því að verið sé að fara í skattkerfisbreytingar á veikum skattstofnum. Ég tel okkur vera að ofmeta getu skattstofna til að greiða skattana. Það blikka mjög skýr ljós um það vegna þess að þegar verið var að fara í skattbreytingarnar í vor, í svokölluðum bandormi, var niðurstaðan sú að skatttekjur, bæði á lögaðila og einstaklinga, skila sér ekki eins og reiknað var með. Ég hafði mjög miklar áhyggjur af því og hafði mörg orð um að það væri mjög óviturlegt að fara í slíkar skattahækkanir á veika skattstofna, það er grundvallaratriði.

Stjórnarliðar hafa, sumir hverjir a.m.k., tekið undir þá tillögu okkar sjálfstæðismanna að fara strax í að taka séreignarsparnaðinn og taka tekjur upp á 75 milljarða beint inn í ríkissjóð, það er hugsanleg leið sem menn vilja skoða á næsta ári. Ég hræðist það mjög að ef við förum í þær breytingar, sem allt bendir til að stjórnarmeirihlutinn ætli að gera, sem hann er að sjálfsögðu búinn að kynna, munum við ná að eyðileggja skattstofnana og þá sé mjög varasamt að fara í hitt að ári. Ég held að við séum að fara í þetta í öfugri röð.

Ég verð líka að segja það, virðulegur forseti, að ég skil ekki þennan asa á ríkisstjórninni. Mér finnst þetta alveg með ólíkindum. Látum nú vera, eins og ég sagði áðan, að menn hafi kannski skiptar skoðanir á því hvort betra sé að fara í þetta þriggja þrepa skattkerfi eða ekki. En ég skil ekki af hverju ríkisstjórnin fer ekki bara í aðrar aðgerðir og úthugsi svo skattbreytingarnar betur fyrir næsta ár. Það er verið að vinna þetta með mjög miklum hraða og hætt við því — enda hafa viðbrögðin við þessu verið, hjá flestum ef ekki öllum, á þann veg að menn eru mjög hræddir við þetta. Gildir þá einu hvort um er að ræða skattkerfisbreytingar á einstaklinga, lögaðila eða virðisaukaskattinn, það er verið að hækka alla skatta út í eitt. Ég hef verulegar áhyggjur af þessu. (BJJ: Það má hækka eitthvað.) Hv. þm. Birkir Jón Jónsson kallar að þeir megi hækka eitthvað. Það getur vel verið að þeir megi hækka eitthvað en það eru bara til miklu skynsamlegri leiðir út úr kreppunni.

Við skattleggjum okkur ekki út úr kreppunni. Við eigum að taka lífeyrissparnaðinn, taka hann inn og bæta við aflaheimildum og annað sem ég mun fara betur yfir á eftir. Margir stjórnarþingmenn hafa líka sagt að með því að skattleggja séreignarsparnaðinn séu menn að taka lán eitthvað inn í framtíðina. Það er algerlega rangt að mínu mati. Það eru ekki mörg ár síðan var verið að greiða séreignarsparnaðinn inn í því magni sem verið er að gera í dag — það má alveg orða það þannig að þá hafi stjórnvöld verið að búa í haginn til mögru áranna þegar á þyrfti að halda og þá á að gera það með þeim hætti.

Það kemur æ betur í ljós að við náum ekki að halda utan um ríkisútgjöldin. Það er, held ég, samdóma álit allra í fjárlaganefnd að við þurfum að breyta þeim vinnubrögðum sem þar eru til að ná utan um það að geta fylgst með kerfinu. Það vantar skýrari skilaboð inn í kerfið, hvernig þetta á að vera. Ég vil sérstaklega nefna eitt dæmi í því tilfelli sem er svokallaður tilflutningur fjárheimilda milli ára. Ekki er enn búið að taka ákvörðun af hálfu ríkisstjórnarinnar um hvað eigi að gera í þeim málum. Það er hreint með ólíkindum að það skuli ekki liggja fyrir og segir kannski allt um það fát og stefnuleysi sem er á ríkisstjórninni, að ekki sé hægt að taka slíkar einfaldar ákvarðanir. Það sem mér þykir þó furðulegast við þetta er að á fund fjárlaganefndar í vor voru boðaðir allir forstöðumenn stofnana og ráðuneyta þar sem þeim var tilkynnt formlega að ekki yrði leyft að færa þessar fjárheimildir á milli ára. Samt eru menn enn að gæla við að þetta verði gert með einhverjum öðrum hætti. Sumar stofnanir hafa ráðstafað hluta af þessum heimildum sem segir allt um það að breyta þarf þessu verklagi.

Virðulegi forseti. Ég ætla að fara aðeins yfir nokkrar lykiltölur. Hv. þm. Kristján Þór Júlíusson, sem var framsögumaður nefndarálits okkar, fór vel yfir tölulegu hliðina þannig að ég ætla að fara öðruvísi yfir þetta en ég vil þó aðeins stikla á stærstu tölunum. Ég vildi vekja athygli á því að tekjur ríkissjóðs eru áætlaðar 458 milljarðar og heildarútgjöld eru 560 milljarðar sem þýðir að frá því frumvarpið var lagt fram og þar til núna, við erum í 2. umr., versnar niðurstaðan um 14,4 milljarða, annars vegar vegna aukinna útgjalda, sem eru þá 9,5 milljarðar, og hins vegar er lögð til aukning upp á tæpa 5 milljarða. Niðurstaðan er sú að við erum að skila ríkissjóði með 102 milljarða halla sem er gríðarlega mikill halli. Ég dreg ekkert úr því að menn verða að bretta upp ermarnar til að taka á þeim vandamálum. Menn verða að fara að stilla þjóðfélagið inn á þá getu sem við getum staðið undir og skattstofnar standa undir. Við búum ekki lengur við þær tekjur sem hafa valdið þenslunni á síðustu árum.

Mig langar líka aðeins að fara yfir forsendurnar fyrir þessu, efnahagslegu forsendurnar. Gert er ráð fyrir að hagvöxtur lækki um 2,3% á milli ára, verðlag hækki um 6%, atvinnuleysi verði 9,6% og viðskiptajöfnuður nemi 2,1% af vergri landsframleiðslu. Þó að umfjöllun um hagvöxt á næstu árum sé ekki efni þessa álits getur 1. minni hluti ekki látið hjá líða að minnast á spár fjármálaráðuneytisins. Árið 2011 er gert ráð fyrir 2,8% hagvexti, 4,8% 2012 og 2,6% 2013. Þá er gert ráð fyrir að verðbólga hjaðni niður í 2,3–2,6% á þessum árum. Ég tel þessar hagvaxtarspár vera í hærri kantinum, og kannski sérstaklega hvað varðar verðbólguna, því að í landinu er undirliggjandi verðbólguþrýstingur.

Mig langar líka að benda á annað sem varðar kröfurnar sem gerðar eru til okkar af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Við urðum dálítið ráðvillt í 1. minni hluta þegar við vorum að vinna nefndarálit okkar vegna þess að við fengum þessa útreikninga ekki alveg til að passa. Þá hafði verg landsframleiðsla verið hækkuð af hálfu ráðuneytisins, úr rúmum 1.500 milljörðum í 1.606 milljarða. Engin efnisleg umræða hefur farið fram um þetta í hv. fjárlaganefnd og kann ég ekki skýringuna á því. Ekki nema menn séu eitthvað að fikta við tölur til að ná einhverjum niðurstöðum sem þeir vilja, en ég neita að trúa því, virðulegi forseti. Menn verða líka að átta sig á því að þegar þeir fara í þennan niðurskurð og ef menn ná ekki tökum á honum eins og ætla mætti munum við á árinu 2011 líka þurfa að fara í mjög mikinn niðurskurð til viðbótar til að halda okkur innan þessa ramma. Það er því mjög mikilvægt að menn nái utan um þetta vandamál strax.

Mig langar síðan aðeins að koma inn á — þar sem ég er að ræða þann losarabrag sem er á ríkisfjármálunum — þann aga sem vantar í þetta. Í bréfi Ríkisendurskoðunar, þeirrar ágætu stofnunar, til fjárlaganefndar í lok nóvember sl. segir að óhætt sé að fullyrða að aðhaldsaðgerðir á miðju ári hafi ekki skilað sér nema að litlu leyti. Þær aðhaldsaðgerðir sem ríkisstjórnin fór í á miðju ári hafa ekki skilað sér nema að litlu leyti. Það veldur mér miklum áhyggjum að þetta skuli vera svona. Menn setja inn ákveðnar forsendur sem þeir ætla að fara eftir en síðan skila þær sér ekki nema að mjög litlu leyti. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að menn taki þetta föstum tökum. Til að árétta hvað þetta er vitlaust í ríkiskerfinu þá er það þannig að ef stofnanir fara mjög mikið fram úr fjárhagsáætlunum þá gerist það með þeim hætti — og væntanlega eru þá þeir sem stýra þeim ekki hæfir til þess, ef þeir geta ekki haldið sig innan fjárlaga, en þá er ekki hægt að láta þetta fólk hætta heldur þarf að skaffa svokallaða tilsjónarmenn.

Það kom mér verulega á óvart á fundi fjárlaganefndar þegar Ríkisendurskoðun upplýsti að sum ráðuneytin væru hugsanlega að útfæra frekar þetta tilsjónarmannakerfi. Ég spyr bara, virðulegi forseti: Hvernig ætla menn að ná tökum á útgjöldum ríkissjóðs ef það er með þeim hætti að þeir sem standast ekki fjárlögin og fjárhagsáætlanir fái þá tilsjónarmenn? Þetta er algjörlega óskiljanlegt og mun að sjálfsögðu ekki skila neinum árangri þannig að þetta er alveg hreint með ólíkindum. Þetta er nákvæmlega eins og að ef skipstjóri úti á sjó fiskaði ekki yrðu viðbrögðin þau að setja bara annan um borð og viðbótarskipstjóra að störfum við hliðina á honum. Auðvitað þarf að virkja áminningakerfið hjá ríkisvaldinu til að fá agann inn í kerfið og að mönnum sé bara gerð grein fyrir því að ef þeir standast ekki þær áætlanir sem þeir eiga að fara eftir, sem verða þá náttúrlega að vera sanngjarnar og eðlilegar en ekki mismunandi milli stofnana, og geta ekki fært eðlilegar skýringar verður bara að láta menn hætta. Þetta fjallar bara um það. Það þýðir ekki að vera með eitthvert gutl í kringum þetta. Það á bara að vera eins og í einkageiranum, þeir sem standast ekki áætlanirnar verða bara að hætta. Það þýðir ekkert að hrúga vandamálunum upp.

Síðan eru viðbrögð ríkisvaldsins oft og tíðum þau að þegar menn eru algjörlega orðnir uppgefnir á mönnum sem standa sig ekki í stykkinu eru þeir bara sendir heim og þeim sagt að þeir þurfi ekki að mæta í vinnuna en fái áfram full laun. Þessu verður að breyta. Það er svokölluð hrein vinstri stjórn við völd og ef hún getur ekki breytt þessu gagnvart verkalýðshreyfingunni við þessi skilyrði er aldrei hægt að breyta því. Þetta er algjörlega óskiljanlegt, óþolandi og ólíðandi.

Ég er að vinna við gerð fjárlaga á Alþingi í fyrsta sinn á ævinni og núna hefur komið í ljós að vinnubrögðin eru mjög sérkennileg oft og tíðum. Það á ekki við um starfið í nefndinni sjálfri, heldur það hvernig framkvæmdarvaldið kemur upplýsingum og skilaboðum inn í nefndina. Við höfum rætt þetta í hv. fjárlaganefnd og allir hv. þingmenn eru sammála um að þessu verði að breyta. Við munum væntanlega taka höndum saman og höfum þegar gert það að því leyti til að við erum búin að flytja nefndartillögu sem allir hv. þingmenn í fjárlaganefnd eru aðilar að sem fjallar um að fjárlaganefnd og starfsmenn hennar fái aðgang að bókhaldsgögnum ríkisins. Ef við ætlum að ná einhverjum tökum á þessu verðum við að geta fylgst með og veitt aðhald. Menn vita þá að það er verið að fylgjast með þeim. Bara það eitt og sér býr til töluverðan aga inn í kerfið, bara það að menn komist ekki upp með það að ekki sé fylgst með þeim. Ég vænti þess að sjálfsögðu að þessi nefndartillaga fái góð viðbrögð í þinginu þannig að hægt sé að bregðast við þessu.

Síðan langar mig að koma inn á eitt, virðulegi forseti, sem ég er dálítið hugsi yfir. Nánast allar ríkisstofnanir eru með fjármálastjóra. Það vekur athygli vegna þess að þó að þær séu tiltölulega litlar að umfangi er alls staðar starfandi fjármálastjóri og það er verið að færa bókhald á öllum þessum stofnunum. Ég tel að þarna sé hægt að ná fram ákveðinni hagræðingu með því t.d. að færa bókhaldið á einum stað, sem er ekki flókið, heldur en að láta færa það á hverri einustu stofnun úti um allt. Til að undirstrika það hvernig fylgst er með gerð fjárlaga og framkvæmd þeirra hefur fjármálaráðuneytið ekki flutt eina einustu skýrslu í haust um hvernig framkvæmd fjárlaga hefur farið fram. Það er mjög bagalegt. Við höfum fengið viðbrögð frá Ríkisendurskoðun, þeirri ágætu stofnun, en það vantar að flytja þetta betur og að geta fylgst betur með þessu.

Síðan langar mig aðeins að koma til viðbótar inn á það sem kemur fram í sambandi við tekjuhlutann. Eins og ég kom inn á í upphafi máls míns hef ég miklar áhyggjur af því að við séum að fara að leggja á háa skatta. Við erum að hækka nánast alla skatta og það er gert við þær aðstæður að skattstofnarnir eru mjög veikir og þá hef ég miklar áhyggjur af því að þær væntingar muni ekki skila sér til ríkissjóðs sem menn hafa til þess að hækka skattstofnana. Ég benti á það í vor að ég hefði miklar áhyggjur af þessu og vonaðist sérstaklega eftir því að ég hefði rangt fyrir mér þar, en því miður var það ekki þannig. Það var rétt sem ég hafði áhyggjur af, við fáum mun minna í skatta en við reiknuðum með að yrði. Það kemur reyndar líka fram í bréfi frá Ríkisendurskoðun að menn fari í raun og veru út á ystu nöf til að ná endum saman í ríkisfjármálunum og viðbúið er að slíkur tekjuslaki sé vart til staðar lengur í kerfinu. Af þessu hef ég verulegar áhyggjur, virðulegi forseti, að ekki sé fyrir hendi sá tekjuslaki sem menn reikna með.

Bara til að árétta þetta, á árinu 2009, sem sagt í ár, eru skattar á tekjur og hagnað einstaklinga 6,6 milljörðum kr. minni en reiknað var með. Samt ætlum við að skattleggja enn þá meira og gerum okkur miklar væntingar. Þar kemur fram að virðisaukaskatturinn er 9,4 milljörðum kr. minni en var reiknað með, þetta eru engar smáupphæðir. Síðan eru skattar á tekjur og hagnað lögaðila núna 2,5 milljörðum kr. minni en var reiknað með og það finnst mér dálítið athyglisvert. Ég mundi ekki vilja standa í því sjálfur persónulega en menn reikna með því í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2010, sem við erum að ræða núna, að á milli umræðna sé 4,2 milljörðum kr. bætt við tekjuskatt lögaðila. Ég geri miklar athugasemdir við þessa tölu, virðulegi forseti, vegna þess að staða fyrirtækjanna í landinu er með þeim hætti að ég tel mjög óraunhæft að ætla að innheimta núna um 17 milljarða kr. í tekjuskatt af lögaðilum. Ég held að menn séu að fara á ystu nöf þarna eins og á við um svo margt annað í þessu. Ég hef verulegar áhyggjur af því að menn ofreikni sér tekjur.

Ef maður rekur sig niður gjaldahliðina vantar klárlega inn í fjárlagafrumvarpið skuldbindingar vegna Icesave-samninganna og það þarf að finna út úr því hvernig það er fært. Þær liggja alveg fyrir og það eru útúrsnúningar ef menn segja að það þurfi einhver bókhaldsleg tækniatriði til að færa þær inn. Menn verða að færa inn þær skuldbindingar sem eru klárlega 35–40 milljarðar kr. þannig að skuldbindingarnar komi fram. Þó að menn hafi bent á að ekki sé búið að samþykkja frumvarpið er búið að samþykkja lög sem gera ráð fyrir því að taka á sig þær skuldbindingar sem nemur tiltekinni upphæð í lok ágústmánaðar og eins er þá hægt að segja, og það hefur komið fram af hálfu fjármálaráðuneytisins, að öll fjárlagafrumvörp séu að sjálfsögðu lögð fram með það að markmiði að öll lög ríkisstjórnarinnar taki gildi. Það er ekki búið að samþykkja skattafrumvörpin sem liggja hér fyrir þannig að það segir sig algjörlega sjálft að þarna á að gilda hið sama.

Það sem mér finnst líka vanta til viðbótar inn í fjárlagafrumvarpið eru lífeyrisskuldbindingarnar, mér finnst þær vera vanáætlaðar vegna þess að eins og við vitum er lífeyrissjóður ríkisstarfsmanna með ríkisábyrgð og hann, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, varð að sjálfsögðu fyrir miklum skakkaföllum við bankahrunið. Það á eftir að koma meira inn, held ég, en reiknað er með í fjárlagafrumvarpinu árið 2010 þannig að ég tel að til viðbótar þurfi að reikna með frekari útgjöldum þar.

Síðan langar mig örstutt að fara inn í það sem er verið að gera í sparnaðartillögunum í ríkisrekstrinum. Ef maður tekur þetta gróft saman, og ég renndi í fljótheitum yfir þetta, er mjög mikið verið í einskiptisaðgerðum. Við erum að fresta og slá af vegaframkvæmdir upp á um 8 milljarða kr., við erum búin að skerða í félags- og tryggingamálaráðuneytinu um rúma 6 milljarða kr., við erum að laga til í utanríkisráðuneytinu, spara þar 2 milljarða kr. með því að fresta því að kaupa sendiherrabústað. Menntamálaráðuneytið sleppir viðhalds- og stofnkostnaði upp á 500 millj. kr. þannig að við erum mjög mikið í einskiptisaðgerðum. Upp undir helmingur er svona aðhaldsaðgerðir á árinu 2010.

Ég er rosalega hræddur við það að á árinu 2011 þurfum við að fara líka til viðbótar í mjög mikinn niðurskurð vegna þess að samkvæmt frumvarpinu erum við að fara að skila ríkissjóði með rúmum 100 milljörðum kr. í mínus, og þá þurfum við að fara í mjög erfiðar ákvarðanir árið 2011. Ég er hér um bil sannfærður um það, virðulegi forseti, að þær verða ekki auðveldari, heldur jafnvel erfiðari en við erum að fara í núna. Þá verður þegar búið að skera töluvert niður og við þurfum að skera enn frekar niður. Ég held að menn hefðu átt að taka betur til í sjálfum rekstri ríkisins. Eins og ég segi er mjög mikið atriði að menn geri þetta rétt þannig að menn fresti ekki vandanum, það mun bara auka hann, enda leggjum við hér til að fara í viðbótarniðurskurð.

Við það að fara í svona miklar skattahækkanir núna erum við í raun og veru að frysta hagkerfið, ég hef verulegar áhyggjur af því að við munum frysta það. Við drögum úr öllu og munum frysta hagkerfið. Ég teldi mun skynsamlegra að fara þá leið sem ég talaði um áðan, að við færum í séreignarsparnaðinn til að koma því betur til skila.

Virðulegi forseti. Nú ætla ég aðeins að koma inn á ákveðnar breytingartillögur okkar. Við leggjum til frekari viðbætur við það sem ríkisstjórnin hefur ætlað sér að gera. Í fyrsta lagi vill 1. minni hluti að Vegagerðinni verði leyft að nýta þá 4,4 milljarða kr. sem eru geymt fé sem var fryst á þessu ári. Reyndar hefur ekki enn verið tekin ákvörðun um hvernig með það verður farið en það er gríðarlega mikilvægt að menn fari í einhverjar verklegar framkvæmdir. Við leggjum til að þetta fari í mannaflsfrekar framkvæmdir, frekar smærri verkefni um allt land, til að skapa atvinnu, skapa virðisauka, tapa ekki verkþekkingunni og að allt fari ekki í rúst þegar við réttum okkur við aftur. Síðan mundi þetta koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot meðal verktaka og ekki síst þeirra smærri. Ég tel mjög mikilvægt að við höldum áfram að framkvæma þarna en tökum til annars staðar í rekstrinum. Eins og ég kom inn á áðan er furðulegt að menn skuli ekki vilja gera það með þeim hætti heldur taka þessar einskiptisaðgerðir út og ætli síðan að fara áfram.

Síðan langar mig aðeins að fara inn á það sem við leggjum til, að skattleggja séreignarsparnaðinn upp á 75 milljarða kr., þessa einskiptisaðgerð, og nota hann núna. (Gripið fram í.) Þá erum við að tala um að sleppa öllum skattahækkunum frá og með áramótum, sleppa öllum þessum skattaáformum. Það þýðir að við munum skila ríkissjóði með 26 milljarða kr. minni halla. Það er nefnilega dálítið sérkennilegt að þegar þessi umræða fer fram hafa stjórnarliðar sagt: Jú, eruð þið búin að ræða við lífeyrissjóðina? Þá hefur maður spurt: Eruð þið búin að ræða við íbúana um að hækka skattana á þá? Auðvitað er þetta þannig.

Það hefur líka komið fram í fréttum á undanförnum vikum, virðulegi forseti, að í kringum 2.000.000.000 kr. eru í bankakerfinu sem eru bara á vöxtum sem ríkið greiðir að sjálfsögðu vegna þess að við borgum miðað við vextina út úr Seðlabankanum. Þetta þyrfti ekki hafa áhrif á lífeyrissjóðina, þeir þyrftu ekki að staðgreiða þetta frekar en þeir vildu, en það er ekki mikið um spennandi verkefni hugsanlega núna fyrir lífeyrissjóðina til að fjárfesta í þannig að ég held að það væri mjög skynsamlegt að gera þetta.

Menn eru alltaf að snúa út úr þessu með skattahækkanirnar, en einstaklingur sem er með 250.000 kr. mánaðartekjur þarf að greiða á næsta ári 100.000 kr. meira í skatta. Þetta mun fara að bíta á fólk þegar búið er að skera þetta með þessum hætti. Það er ekki endalaust hægt að skattpína fólk í þessu landi.

Síðan leggjum við í 1. minni hluta líka til að aflaheimildir verði auknar. Það getur skilað okkur — við viljum auka aflaheimildir sem eru í kringum 27–28 milljarðar kr. sem gætu skilað atvinnutekjum upp á 8–10 milljarða kr., og þá gætu beinar skatttekjur ríkissjóðs numið 2,5–4 milljörðum kr., eða í kringum 3,5 milljarða, og þá værum við bara að tala um skatttekjurnar og tryggingagjaldið. Þá er ekkert verið að tala um neinar afleiður af því sem það mundi skapa störf og annað til viðbótar, ekkert tekið til greina hvað það mundi spara í atvinnuleysisbótum, hvað það gæti aukið svigrúm sveitarfélaganna, hafnarsjóðinn og þar fram eftir götunum og öll óbeinu áhrifin. Það er hins vegar algjörlega staðfest að ef menn auka aflaheimildir aukum við landsframleiðsluna um allt að 60–90 milljarða kr. Það segir kannski allt um áhrifin af svona aðgerðum.

Það er einu sinni þannig, virðulegi forseti, að þegar við stöndum í þeim sporum sem við erum í í dag verður að fara að framleiða og draga saman seglin ef við ætlum að ná saman endum í ríkissjóði. Það er alveg kristaltært í mínum huga, öðruvísi komumst við ekki gegnum þetta. Það þýðir ekki að vera með neitt gutl eins og stjórnarmeirihlutinn hefur verið með, eða ríkisstjórnarflokkarnir, að þegar á reynir og þarf að taka af einhverri alvöru á málum eru menn spriklandi með þetta út um allt eins og til að mynda það sem ég nefndi áðan, þær breytingar sem eru tilætlaðar í Fæðingarorlofssjóðnum en þar er búið að henda því þrisvar á milli manna. Það er alveg með ólíkindum hvernig menn ætla að vinna þetta.

Síðan leggjum við í 1. minni hluta til að gerð sé aukin sparnaðarkrafa á aðalskrifstofu ráðuneytanna og það eru engir smápeningar þar á ferð. Við leggjum til að það verði aukið um 3%, við erum mjög væg og leggjum því til þessi 3% sem mundu skila ríkissjóði kringum 160 millj. kr. á ársgrundvelli og síðan mundum við vilja skera niður ráðstafanir ráðherra sem eru um 47 milljónir eða tæpar 50 milljónir. Við erum því að tala um 210 milljónir. Það er nóg af verkefnum til að setja þessa peninga í, svo mikið er víst.

Síðan verð ég líka að segja, virðulegi forseti, að það sem við þurfum að gera er að við þurfum að núllstilla okkur upp á nýtt. Það er alveg furðulegt að þurfa að vera að reikna með mörgum tugum milljarða í atvinnuleysisbætur og síðan verður maður vitni að því — þó að það sé rosalega sárt hjá því fólki sem missir atvinnu, það er rosalega sárt að horfa upp á það að við séum með þetta háa atvinnuleysisstig — að þegar þarf að fara að skaffa fólk til vinnu þá verðum við að flytja það inn. Það er alveg með ólíkindum. Ef þarf að fara í almenn störf þurfum við oft og tíðum að flytja inn erlent vinnuafl til að vinna þau störf og síðan sitjum við sum hver áfram heima. Það er algerlega furðulegt, frú forseti, að það skuli vera svo. Þarna þurfum við að taka mjög fast á hvernig þetta er gert til að koma þessu til betri vegar því að við getum ekki verið að borga fullt af fólki atvinnuleysisbætur heima en þegar hugsanlega er einhverja vinnu að hafa þurfi að flytja inn erlent vinnuafl til að leysa þau störf af hendi. Þeir tímar eru liðnir. Nú verða menn að taka sig á og bretta upp ermar.

Það er nefnilega þannig, virðulegi forseti, að í fjárlagafrumvarpinu er enn þá fullt af sporslum og þær verður að taka út. Síðan er það eitt atriði sem er svokölluð sóknaráætlun 20/20. Eftir því sem ég best veit hefur þetta verkefni aldrei verið kynnt fyrir fjárlaganefnd. Þetta er gæluverkefni varaformanns Samfylkingarinnar, 25 millj. kr., sem hefur aldrei verið kynnt fyrir fjárlaganefnd, ekki einn einasti stafur. Það eru 25 millj. kr., sjálfsagður hlutur. Ég hef velt þessu fyrir mér enda veit ég ekkert um hvað þetta verkefni fjallar. Þetta hlýtur að vera eitthvert gæluverkefni þar sem varaformaður Samfylkingarinnar stýrir því.

Síðan langar mig til að nefna, virðulegi forseti, í ljósi þess að menn eru að tala um þessa breyttu tíma, að það hefur komið í ljós á undanförnum dögum og vikum að búið er að ráða í um 50 störf frá því að þessi ríkisstjórn tók við völdum 1. febrúar, til ráðuneytanna án auglýsingar. Það er búið að hrúga fólki þar inn. Þetta eru vinnubrögð sem verður að breyta ef menn ætla að taka sig saman í andlitinu. Svo geta menn verið að skera niður alveg við trog við einstaka sjúkrastofnanir og annað, menn hagað sér þannig. Það er algerlega óþolandi, gersamlega. Við í 1. minni hluta réttum fram höndina, útrétta hönd og segjum: Við viljum á milli 2. og 3. umr. skera enn frekar niður í ríkisútgjöldum um 8 milljarða til viðbótar við það sem lagt er fram. Ég hvet stjórnarþingmenn, það kemur fram í þeirri tillögu, að við munum ræða það milli 2. og 3. umr. í fjárlaganefnd hvernig þetta verður útfært, hugsanlegir málaflokkar, einstök verkefni og þar fram eftir götunum. Við réttum út hönd okkar og segjum: Við skulum hjálpa ykkur í þessu. Við munum ekki vera hérna eins og gargandi stjórnarandstaða, eins og margir hverjir hv. þingmenn hafa verið í gegnum tíðina og sagt: Það vantar meira hér og meira þar og alls staðar. Við erum ábyrg stjórnarandstaða og segjum: Við skulum rétta út hönd, vinna með ykkur og standa við hliðina á ykkur við það að skera enn frekar niður. En við viljum gera það rétt, það er ekki sama hvernig það er gert.

Það eru ákveðnar heimildargreinar í frumvarpinu sem eru hreint með ólíkindum margar hverjar. Við viljum að það sem snýr að húsnæði verði tekið út, t.d. eins og að kaupa og selja húseignir ríkisins, Borgartún 5 og 7, sem er Vegagerðin, kaupa eða leigja húsnæði fyrir aðalskrifstofur ráðuneyta, kaupa viðbótarhúsnæði fyrir Þjóðleikhúsið, kaupa eða leigja hentugt húsnæði fyrir Vinnumálastofnun, kaupa viðbótarhúsnæði fyrir starfsemi Listasafns Íslands, kaupa eða leigja hentugt húsnæði fyrir starfsemi Tryggingastofnunar ríkisins og kaupa eða leigja húsnæði fyrir Umferðarstofu, kaupa eða leigja húsnæði fyrir Veðurstofu Íslands, Vatnamælingar og þar fram eftir götunum. Þessu viljum við að verði hent út af því að nú eru þeir tímar, virðulegi forseti, að menn geta ekki verið í einhverju svona gutli lengur. Nú verða menn að sýna ábyrgð til að ná fram árangri en ekki ráðast alltaf á ellilífeyrisþega og öryrkja og hækka síðan skattana á hina. Nú verða menn að sýna eitthvað af viti.

Það sem er í frumvarpinu og er búið að vera og vantar inn í fjáraukalögin 2009 — ég er verulega óánægður með það og vakti athygli á því í óundirbúnum fyrirspurnum við hæstv. fjármálaráðherra, að ríkisvaldið er núna að soga til sín tekjur frá sveitarfélögunum í landinu. Það er að soga tekjur frá sveitarfélögunum til að rétta af ríkissjóðinn en setur sveitarfélögin síðan í verri stöðu. Það eru mörg dæmi um þetta, t.d. að hækkunin á tryggingagjaldi 1. júlí þýðir um 700 milljarða aukningu á sveitarfélögin á árinu 2009, það þýðir um 1,3 milljarða á árinu 2010, þetta eru 2 milljarðar sem ríkið er að taka frá sveitarfélögunum inn til sín. Ég spyr þá hv. þingmenn sem geta haldið því fram að sveitarfélögin í landinu séu aflögufær af þeim peningum. Ég auglýsi eftir þeim.

Staða sveitarfélaganna í landinu er grafalvarleg og ég held, virðulegi forseti, að margir hv. þingmenn verði að fara að gera sér grein fyrir því. Það er verið að færa tekjur frá sveitarfélögunum til ríkisvaldsins sem er algerlega óþolandi og ólíðandi. Þrátt fyrir að hæstv. fjármálaráðherra hafi sagt á fundi fjárlaganefndar — ég spurði hann sérstaklega eftir því þegar verið var að kynna bandorminn hvort það væri ekki alveg öruggt að sveitarfélögunum yrði bættur þessi tekjumissir, jú, hann sagði að svo yrði gert. Við það hefur ekki verið staðið, virðulegi forseti, og ég harma það mjög því það er furðulegt ef hæstv. ríkisstjórn heldur að hún geti gengið endalaust á hlut sveitarfélaganna, þá mun hún stefna sveitarfélögunum í þrot. Það er ekki flóknara en það.

Síðan er eitt sem við leggjum til til viðbótar, virðulegi forseti. Á næsta ári mun Landhelgisgæslan fá afhent nýtt varðskip. Það var eitt æðið sem menn tóku þegar velsældin var sem mest. Við leggjum til að þetta varðskip verði selt eða leigt. Söluandvirði þessa skips er um 5 milljarðar, reikna þeir í dag ef hægt væri að selja það. Ég veit til þess að Norðmenn hafa hug á að láta smíða mjög svipuð skip og ég held að menn ættu að reyna að selja þetta skip til Norðmanna eða í það minnsta leigja það vegna þess að við höfum klárlega ekki efni á því að reka þetta skip, enda er ekki gert ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpinu að öðru leyti en því að því yrði siglt heim. Það er nefnilega fullt af hagræðingarmöguleikum í ríkiskerfinu ef menn fara að vinna og rýna í það með þeim hætti að þeir ná árangri.

Síðan bendum við á það, virðulegi forseti, að núna væri hugsanlega hægt að færa skipaflota Hafrannsóknastofnunar yfir til Landhelgisgæslunnar vegna þess að við eigum þar nýtt og glæsilegt hafrannsóknaskip, sem heitir Árni Friðriksson, en liggur því miður bundið við bryggju mjög marga daga ársins og þeir eru orðnir fleiri held ég en það er á sjó. Við gætum sannarlega samnýtt það skip til að vera líka landhelgisskip. Það er ekkert vit í því að kaupa varðskip upp á 5 milljarða og það eru tæplega 1.700 milljónir í fjárlagafrumvarpinu 2010 sem þurfa að fara sem lokagreiðsla á skipinu og það er núna sem menn þurfa að gera slíka hluti. Það er ekkert sem mælir á móti því, virðulegi forseti, að nýta Árna Friðriksson sem gæsluskip og eins sem hafrannsóknaskip því það væri þá úti á miðunum og gæti að sjálfsögðu bæði rannsakað miðin og fylgst með landhelginni. Það er ekki mjög flókið og í rauninni væri skynsamlegt að samnýta og jafnvel sameina allan skipaflota frá Hafrannsóknastofnun undir Landhelgisgæsluna og nýta hann á þann veg til að sýna sparnað og hagræðingu.

Síðan komum við inn á og höfum miklar áhyggjur af því að við í 1. minni hluta teljum að huga þurfi betur að framlögum til löggæslumála því þau hafa dregist verulega saman, það er mjög varasamt á þessum tímum eins og við höfum séð. Það verður að tryggja öryggi íbúanna. Við teljum að þar sé farið dálítið harkalega, en ákveðin leiðrétting gagnvart löggæslunni þarf að fara fram, eins og reyndar lagt er til í fjárlagafrumvarpi, gagnvart dómstólunum í landinu, það er mikilvægt að það verði gert.

Það er alveg ótrúlegt að upplifa það, virðulegi forseti, að á dögunum kynnti starfshópur hæstv. heilbrigðisráðherra niðurstöðu úr því sem hann var að vinna fyrir hæstv. félagsmálaráðherra, þ.e. hópurinn sem hæstv. heilbrigðisráðherra skipaði sjálf. Út úr þeirri vinnu kom að með því að hagræða á svokölluðum kragasjúkrahúsum er hægt að skapa 1.400 millj. kr. í hagnað með því að veita sömu þjónustu. Hér er einn hv. þingmaður, Guðlaugur Þór Þórðarson, sem hefur talað um þetta í allt sumar, er margoft búinn að benda á þetta í ræðustól á Alþingi og vekja athygli á þessu, en þá segir hæstv. heilbrigðisráðherra: Nei, þetta er bara ekki nógu gott. Það hentar ekki skoðunum hennar þó svo starfshópurinn hennar hafi skilað niðurstöðu. Það er eins og hann eigi að skila bara fyrir hana. Starfshópurinn bendir á að hægt er að spara rúmar 1.400 millj. kr. með því að fara í þessar breytingar án þess að skerða þjónustuna. En hæstv. ráðherra segir: Nei, þetta hentar mér ekki. Hún vill frekar fara í flatan niðurskurð, hrúga upp biðlistum án þess að fara í svona aðgerðir. Þetta er alveg með ólíkindum. Hvernig ætlum við, virðulegi forseti, að ná tökum á ríkisútgjöldunum ef við ætlum að hugsa og vinna svona. Ég kvíði því ekki þegar það kemur fram sem einmitt margir starfsmenn heilbrigðisþjónustunnar hafa bent á, að afleiðingin af þessu er að biðlistar hrúgast upp. En með því að fara í þessar breytingar þá geta menn sparað 1.400 millj. kr. og það er sama þjónusta, sama þjónustustig, segir þessi faglegi vinnuhópur, en af því að þetta hentar ekki hæstv. heilbrigðisráðherra þá virkar þetta ekki neitt. Ef við breytum ekki svona vinnubrögðum þá er illa komið fyrir okkur.

Fyrst ég er farinn að ræða um hæstv. heilbrigðisráðherra langar mig að vekja athygli á einu til viðbótar af því að tíminn fjarar hratt út, virðulegi forseti, að núna liggur fyrir að hæstv. heilbrigðisráðherra virðist ekki ætla að gera það, þó að maður hafi þá von í brjósti, þ.e. að rétta af þær stofnanir sem verið er klárlega að skera mjög mikið niður miðað við aðrar, eins og t.d. þrjár heilbrigðisstofnanir á Norðvesturlandi, á Blönduósi um 10,1% á Sauðárkróki um 8,9% og á Patreksfirði um 8,7%. Þetta er langt umfram aðrar heilbrigðisstofnanir á landinu. Það er ekki verið að gera kröfu um að þær heilbrigðisstofnanir fái eitthvað meira en aðrar heldur er verið að tala um að þessar þrjár stofnanir skera sig úr að því leyti að þær lenda í miklu meiri niðurskurði en allar aðrar. Á sama tíma og hæstv. heilbrigðisráðherra er að auka útgjöld til aðalskrifstofunnar í Reykjavík um 8,4%, í skrifstofuhítina í Reykjavík, er verið að skerða þjónustu við sjúklingana úti á landi. Á sama tíma, sem vekur þó enn meiri athygli, er verið að færa fullt af verkefnum frá heilbrigðisráðuneytinu yfir í félagsmálaráðuneytið. Samt stækkar aðalskrifstofan. Ég spyr: Hvar er niðurskurðarhnífurinn þar? Bara hækkunin á aðalskrifstofunni í Reykjavík gæti tryggt afkomu þessara þriggja sjúkrastofnana úti á landi Nei, það skal fara í starfsemi hér og rökin eru hver? Ég hef ekki heyrt nein rök fyrir þessu, ekki nokkur einustu nema þá að þetta sé skýr stefna ríkisstjórnarinnar um að vinna skuli með þeim hætti að skerða hlut sjúklinga á landsbyggðinni en auka skrifstofubáknið í Reykjavík. Það eru þá skýr skilaboð, hin norræna velferð felst þá í því.

Ég get ekki farið í ræðupúltið undir umræðu um fjárlögin án þess að nefna tónlistarhúsið. Nú stefnir allt í að lokakostnaðurinn við tónlistarhúsið verði um 27 milljarðar. Á sama tíma eru stjórnvöld að taka ákvörðun um að skerða hlut ellilífeyrisþega, örorkulífeyrisþega og hækka skattana á alla í landinu, en menn geta haldið áfram að byggja tónlistarhús. Nei, það þarf ekki að hugsa þar. Nógir peningar eru til í það. Halda skal áfram fyrir marga, marga milljarða og tugi milljarða og síðan munu menn að sjálfsögðu, virðulegi forseti, vakna upp við það eftir örfá ár að reka þurfi alla þessa hít. Þá munu það verða nokkur hundruð milljónir, ef ekki milljarðar, í fjárlagafrumvarpinu sem búið er að setja inn í þó svo ekki sé stafur á bók um það núna, það þarf að reikna með því. Það er hlutur sem við þurfum að breyta, reyndar er samkomulag um það í nefndinni að þetta verði að koma inn. Þetta eru fjárhagslegar skuldbindingar og koma því svo í gegnum hina svokölluðu 6. gr.

Virðulegi forseti. Nú er tími minn því miður liðinn.