138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[20:49]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég sagði einmitt í ræðu minni hér áðan að umsögn fjárlaganefndar er varðar tekjuhlið fjárlagafrumvarps fyrir árið 2010 hefði ekki verið tilbúin á þessum degi. Það var ekki búið að taka á móti öllum þeim fulltrúum sem við óskuðum eftir að kæmu fyrir nefndina. Þeirri umfjöllun var ekki lokið þannig að hv. formaður fjárlaganefndar getur ekki fullyrt í fjölmiðlum að afgreiðsla málsins — það sem efnahags- og skattanefnd leggur fram sem sitt álit er að sjálfsögðu hluti af afgreiðslu málsins — hafi verið til fyrirmyndar. Hún var algjörlega ófullnægjandi.

Í raun og veru bíður okkar vinna milli 2. og 3. umr. þegar við höfum séð hverjar endanlegar tillögur verða er snerta breytingar á skattkerfinu, sem er tekjuöflun ríkisins. Það liggur ekki fyrir. Þessi vinnubrögð eru dæmalaus að þessu leyti. Við erum reyndar vön því í efnahags- og skattanefnd að mál séu rifin þaðan út, eins og Icesave-málið, þrátt fyrir að beiðni liggi fyrir um fleiri gesti á fundi nefndarinnar. Þetta eru hin nýju vinnubrögð hér á Alþingi Íslendinga.

Hv. þingmaður talar um þriggja ára áætlun í ríkisfjármálum en árin 2005, 2006 og 2007 lá alltaf fyrir fjögurra ára áætlun, langtímaáætlun í ríkisfjármálum. Það er því ekkert nýtt í þeim efnum. Vinnulag fjárlaganefndar núna hefur því miður ekki verið nægilega gott og ég bið hv. formann fjárlaganefndar að sýna okkur nefndarmönnum í efnahags- og skattanefnd — sem sannarlega komum því á framfæri að það álit sem við hefðum sent frá okkur væri ekki fullnægjandi í ljósi þess að okkur vantaði frekari upplýsingar, þyrftum að heyra í fólki og hafa samráð í samfélaginu — samráð sem ríkisstjórnin talar svo mikið um. Þau vinnubrögð voru einfaldlega ekki fullnægjandi.