138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[20:53]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er hægt að skoða þetta mál frá mörgum hliðum. Ég vil minna hv. þingmann á að frá aldamótum til ársins 2007 námu greiðslur úr ríkissjóði í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, B-deild, hátt í 100 millj. kr. Fjármunirnir voru því svo sannarlega nýttir til þess að minnka skuldir hins opinbera. Mig minnir að árið 2007 hafi ríkissjóður verið orðinn hér um bil skuldlaus. Síðan tók Samfylkingin við og jók umsvifin milli fjárlaga 2007 og 2008 um 20%, sem hafði ekki sést í mörg ár. (Gripið fram í.) Á meðan það gerðist tifuðu Icesave-reikningarnir, þeir tifuðu líka árið 2008 og eru enn að tifa. Samfylkingin er búin að vera við völd allan þennan tíma og hver er staðreyndin? Vaxtagjöldin á ári bara af Icesave-reikningunum verða 40 og eitthvað milljarðar króna. (Gripið fram í.) Þannig hefur Samfylkingin skilið við og hún er enn við völd. (Gripið fram í.)