138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[20:56]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Nei, þetta er ekki hefðbundið og kannski merki um þann brag sem er á þessu máli öllu, þann ofboðslega hraða sem einkennir það. Það þarf að drífa þetta í gegn. Þetta var allt gert í mikilli tímaþröng hjá framkvæmdarvaldinu og þess sér stað í því að mörg útgjöld sem hv. þingmaður nefndi, sem snerta skipulagsbreytingar á þessu kerfi, koma ekki fyrir í útgjaldaliðum fjárlagafrumvarpsins. Það þarf greinilega að fara vel yfir það á milli 2. og 3. umr.

Ég vil líka minna hv. þingmann á að í raun og veru er gert ráð fyrir í forsendum skattinnheimtunnar að við búum þar við sams konar kerfi, þ.e. sams konar skil og að undanskotin í ljósi þess að flækjustigið verður meira og mun ekkert minnka — það er þvert á það sem aðilar eins og ríkisskattstjóri og skattstjórar um landið hafa bent á að muni gerast eða alla vega að veruleg hætta sé á. Bæði er því að mínu mati verið að vanmeta útgjaldahlið frumvarpsins og ofmeta tekjuhliðina að mörgu leyti. Því tel ég að við þurfum að fara miklu betur yfir þetta mál á milli 2. og 3. umr.

Eins og ég nefndi í ræðu minni áðan eru 14 mánuðir liðnir síðan efnahagshrunið varð og þá var ljóst að ríkisstjórnin þyrfti að fara í breytingar, m.a. á skattaöflun ríkissjóðs. Að fá frumvarp fram um mánaðamótin nóvember/desember og að efnahags- og skattanefnd eigi að afgreiða þetta mál á nokkrum virkum dögum. — Eins og hv. þingmaður hefur bent á höfum við verið um helgar og alla daga frá morgni til kvölds að taka á móti tugum aðila. Þeir hafa varað okkur við því að verklag sem þetta geti haft í för með sér mistök og ég hélt að við værum búin að gera nóg af mistökum hér á Alþingi á síðustu mánuðum undir mikilli tímapressu.