138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[22:22]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þegar ég hlusta á nokkra þeirra hv. þingmanna sem vilja alls ekki að við semjum um Icesave finnst mér, eins og kom fram hjá hv. þm. Pétri Blöndal, (Gripið fram í.) eins og við hefðum bara þessa peninga. Við þurfum að ganga frá Icesave og þetta hverfur ekki. Við þurfum að leggja á aukna skatta. Hver vill fá aukna skatta? Það vill enginn aukna skatta en hvernig ætlar hv. þingmaður að afla tekna, fá meira fjármagn inn í ríkissjóð? Það er gert með sköttum. Það sem þessi ríkisstjórn ætlar að standa vörð um er að verja þá sem eru á lægri launum, verja þá sem eru viðkvæmastir fyrir og reyna í lengstu lög að verja velferðarþjónustuna. Það gerum við með réttlátari sköttum en ekki með því að lækka skatta á þá sem hafa hæstu tekjurnar eins og ríkisstjórn hv. þingmanns gerði meðan hún var við stjórn.