138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

17. mál
[16:15]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum mál sem heitir því einfalda nafni „Frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna endurskoðunar á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn og innleiðingar á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 178/2002 frá 28. janúar 2002 auk afleiddra gerða.“ Það er því ekki furða að menn hafi tekið að kalla þetta „matvælafrumvarpið“ til að ekki þurfi að fara með allan þennan haus í hvert sinn sem menn minnast á málið. Eins og fram hefur komið í ræðum hv. þingmanna sem á undan mér hafa talað er þetta ákaflega mikilvægt mál sem snertir nokkra af meginhagsmunum íslenskum þjóðarinnar. Þess vegna hefur mig undrað það, bæði í sumar og aftur í haust þegar við tókum þetta mál til umfjöllunar og kannski ekki síður núna þegar við erum komin að endasprettinum, hversu fáir taka til máls um þetta mikilsverða frumvarp.

Við höfum aðeins farið yfir aðdragandann að þessu máli en hann nær aftur til 23. október 2007 þegar ríkisstjórnin heimilaði staðfestingu á sex ákvörðunum hinnar sameiginlegu EES-nefndar sem fela í sér ýmsar breytingar á viðaukum og bókunum við EES-samninginn. Efnislega var um að ræða endurskoðun á undanþágu Íslands frá I. kafla, eins og hér hefur komið fram, um landbúnaðarkaflann og kafli um matvæli og fóður yrði tekinn inn í EES-samninginn. Framangreindar ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar voru staðfestar af nefndinni 26. október 2007 með fyrirvara um samþykki Alþingis. Lagafrumvarp þetta kveður á um þær lagabreytingar sem nauðsynlegar eru vegna framangreindra breytinga á EES-samningnum og innleiðingar fyrrgreindrar EES-löggjafar um matvæli og fóður.

Þetta snýst í raun og veru, eins og komið hefur fram, um að tryggja útflutning, sérstaklega sjávarútvegsafurða, og yfirtaka heildarmatvælagjöf Evrópusambandsins að öðru leyti alla eins og hún kemur fyrir. Undanþága Íslands frá I. kafla í viðauka við EES-samninginn snýst um sex liði sem við höfum áður fjallað um. Frumvarpið gerir ráð fyrir að matvælaráðgjöf Evrópusambandsins muni taka gildi hérlendis með samþykkt þessa frumvarps og þannig verða sömu heilbrigðiskröfur gerðar til matvælaframleiðslu hérlendis og á EES-svæðinu. Þetta á þá jafnt við um búfjárafurðir, kjöt, mjólk og egg, sem sjávarafurðir. Varðandi þetta er kannski rétt að minnast þess, ef við ætlum að taka upp matvælalöggjöf Evrópusambandsins og eftirlit, að á Íslandi er tíðni matarsýkinga lægst í heiminum og okkar eftirlit þar af leiðandi með miklum sóma. Meðal annars hefur verið unnið að því til að tryggja að það haldi áfram og fá svokallaðar viðbótartryggingar vegna salmonellu vegna þess að á Íslandi eru salmonellusýkingar mjög fátíðar. Það skortir hins vegar að taka til viðbótartryggingar vegna kampýlóbaktersýkinga sem eru einnig mjög fátíðar á Íslandi en valda einmitt fjölmörgum matarsýkingum erlendis. Með reglugerðinni eru einnig settar heildarreglur um fæðuöryggi frumframleiðslu til markaðssetningar og þannig er kveðið á um stofnun Matvælaöryggisstofnunar Evrópu, eða EFSA, en Ísland mun síðan taka fullan þátt í starfi og stjórn stofnunarinnar. Kostnaðarhlutdeild Íslands í rekstri EFSA er áætluð tæpar 73.600 evrur, einhvers staðar á bilinu 13–14 millj. kr. eftir því hvert gengið er.

Þegar hér er komið vil ég þakka formanni nefndarinnar, hv. þm. Atla Gíslasyni, og nefndinni fyrir gott samstarf um þetta mál. Eins og komið hefur fram er þetta fjórða þingið sem um þetta mál er fjallað og það verður að segjast eins og er að fyrst á þessu þingi hafa menn verið tilbúnir að taka til ýmissa breytinga. Kannski er einfaldast að benda á að einar 18 breytingar verða teknar til atkvæðagreiðslu á milli umræðna með fjölmörgum hliðar- og undirliðum og þó að þær séu kannski ekki stórar efnislega eru þetta tæknilegar útfærslur á íslenskan mælikvarða. Fjölmargir aðilar hafa sent inn athugasemdir í hvert sinn, þ.e. öll þessi fjögur ár á öllum stigum, og sérstaklega núna í haust sendu þónokkrir aðilar ítrekað inn álit og unnið var að því í samstarfi við þá að bæta málið. Ég vil þakka ráðuneytinu, ráðherra og ráðuneytismönnum fyrir að vera tilbúnir til þess.

Hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir, varaformaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, fór ágætlega yfir margt í þessu nefndaráliti og ég ætla ekki að fara yfir það frá A til Ö enda hef ég engan tíma til þess. Ég skrifaði upp á þetta með fyrirvara og sá fyrirvari tengist því að í umræðum mínum, bæði í sumar og aftur í haust í 1. umr., gerði ég athugasemdir við nokkra liði og þá fyrst og fremst lið sem snertir verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga er varðar matvælaeftirlit, þ.e. færslu á þónokkrum hluta verkefna frá heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga yfir til Matvælastofnunar, yfir til ríkisins. Ég taldi að nokkrar af þeim breytingum væru ekki af völdum tilskipunarinnar heldur væri verið að lauma þeim í gegn eða það væri pólitískt markmið að styrkja ríkið og færa verkefni frá sveitarfélögunum. Ég taldi það athugunarvert. Sá fyrirvari sem ég skrifa upp á er fyrst og fremst út af því, þar sem mér hefur fundist að þó að ýmislegt hafi verið gert til að koma til móts við álit mitt, og þá bæði sveitarfélaganna og heilbrigðiseftirlitssvæðanna, hefði mátt ganga heldur lengra.

Annað atriði sem ég gagnrýndi talsvert voru breytingar á dýralæknahlutanum, þ.e. hvernig þjónusta dýralækna er um land allt. Ég geri mér hins vegar alveg grein fyrir því, og það er kannski auðvelt fyrir mig þar sem ég var á sínum tíma í nefnd sem stóð að því að breyta lögum um dýralækna á árunum 1994, 1995 og 1996 líklega, þ.e. að aðskilja þjónustu frá eftirliti — nú er það sú tilskipun sem um það fjallar sem kallar á þessa breytingu að mati ráðuneytisins, að ekki sé hjá því komist. Þá verður líka á móti að reyna að tryggja reglubundna dýralæknaþjónustu og bráðaþjónustu í dreifðari byggðum landsins. Ýmislegt hefur verið gert til þess og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson kom ágætlega inn á það. Bæði hefur verið lengt aðeins í möguleikum, þ.e. tímaundanþáguheimildir til að starfa áfram við óbreytt ástand til að aðlaga, og hins vegar lögðum við í nefndinni mikla áherslu á að það yrði tryggt að reglugerð sem ráðherra skyldi setja yrði gerð í beinu framhaldi af gildistöku laganna og hún yrði komin fram 1. júlí 2010. Þá geti menn farið að átta sig á því við hvaða starfsaðstæður dýralæknar í dreifðari byggðum muni búa þannig að hægt verði að tryggja að sú þjónusta verði fyrir hendi þótt gildistökunni seinki aðeins og eins eru heimildir ráðherra til að fresta því allt til 1. janúar 2015. Með þessum hætti ætti að vera tryggt að ekki verði skyndilegar breytingar á þjónustu dýralækna við dýraeigendur víðs vegar um landið þannig að það yrðu einungis opinberir aðilar sem sæju um eftirlit en engir aðrir væru til að þjónusta.

Varðandi breytingu á fyrirkomulagi matvælaeftirlitsins í sjávarútvegi gildir það sama að skoðunarstofur, sem voru séríslenskt fyrirbæri og ekki þekktar í Evrópusambandinu, fá eins árs aðlögunartíma. Síðan munu þær vonandi geta fundið sér ákveðið verksvið innan ramma laganna þótt það verði með öðrum hætti en áður, þar sem það er mikilvæg krafa frá Evrópusambandinu eða þessari matvælalöggjöf að um opinbert eftirlit sé að ræða en ekki einkaaðila. Þeirra verkefni getur hins vegar verið klárt með framsali og eftirliti þótt það sé haft undir yfirumsjón Matvælastofnunar í þessu tilviki.

Þá erum við komin að ýmsum öðrum smábreytingum sem voru gerðar á frumvarpinu og snertu fæðubótarefni og eins nokkrum öðrum undanþágum sem voru heimildir til ráðherra að undanskilja ákveðna aðila frá starfsleyfis- og tilkynningarskyldu, að fjalla aðeins um úrgang og aukaafurðir dýra og tæknilegar útfærslur á því að skilja á milli hvaða verk tilheyri hvaða eftirlitsstofnun, þ.e. Matvælastofnun annars vegar og hins vegar Umhverfisstofnun eða heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga. Nefndin lagði talsvert upp úr að reyna að tryggja að ýmis slík atriði væru skýr þannig að þeir aðilar sem síðan eiga að vinna eftir þessum lögum — það var líka eitt af því sem ég hafði gagnrýnt áður að textinn væri ekki nægilega ljós en margt af því hefur skýrst þannig að þeir aðilar sem eiga að vinna eftir þessum lögum og reglugerðum hafa skýrari fyrirmæli en samkvæmt frumvarpinu eins og það leit út upphaflega.

Eitt atriði sem hefur verið talsvert rætt og ég vil vekja athygli á er bann við innflutningi á hráu kjöti. Auk þess hefur verið bætt við nokkrum öðrum hlutum í þessari umfjöllun, þ.e. hráum eggjum, ósótthreinsuðum hráum skinnum og húðum. Þetta innflutningsbann á hráu kjöti munum við framsóknarmenn styðja heils hugar og reyna að gera allt hvað við getum með ráðherranum og ráðuneytinu og höfum lýst því yfir. Það mun auðvitað leggja ýmsar byrðar á ýmsa eftirlitsaðila á Íslandi og væntanlega mun það þýða aukinn kostnað við einhverja af þeim eftirlitsþáttum þar sem við þurfum að sýna fram á að við höfum ekki sjúkdóma sem aldrei hafa verið í landinu. Eins sérkennilega og það hljómar þurfum við að taka sýni til að sýna fram á að við höfum ekki eitt og annað. Það kostar fjármuni en við það verðum við að standa ef við ætlum að taka þetta skref. Ég lýsi því yfir að ég mun styðja slík fjárútlát vegna þess að það er mjög mikilvægt að viðhalda þessu innflutningsbanni vegna sjúkdómahættu hjá okkar merkilega búfé sem eins og allir vita hefur lifað við ákveðna einangrun í ansi langan tíma.

Ég ætla að gera aðeins að aukaumtalsefni það atriði sem var ástæðan fyrir því að ég skrifaði upp á nefndarálitið með fyrirvara. Mér finnst nefndin ekki hafa gengið nægilega langt og er með vísi að breytingartillögu sem ég vil ræða í nefndinni í 3. umr. um að hafa aðeins skýrari texta. Þannig er að ýmislegt verður dregið af þessari tilskipun að mati ráðuneytisins og Matvælastofnunar sem ýmsir aðilar og reyndar mjög margar umsagnir telja að sé ekki bein afleiðing af tilskipuninni. Ég hef sagt að við göngum stundum þá leið að vera kaþólskari en páfinn við að uppfylla Evrópusambandstilskipanir. Það er oft og tíðum vegna þess að eftirlitsstofnunin ESA hefur gert athugasemdir. Því er mjög athyglisvert að skoða til að mynda matvælaeftirlit í þeim löndum sem ég og gerði við þessa vinnu. Ég fékk úttekt á því hvernig matvælaeftirliti er háttað annars vegar í Noregi, sem er EES-land eins og við Íslendingar, og hins vegar í Svíþjóð, Danmörku og Bretlandi. Þá kemur í ljós að Noregur gengur eins langt og menn hafa haldið fram að þurfi að gera á Íslandi, þ.e. að færa allt matvælaeftirlit undir eina ríkisstofnun og það sé mjög mikilvægt enda krefjist ESA þess. Ef við förum til hinna landanna aftur á móti, hvort sem er Svíþjóðar, Danmerkur eða Bretlands sem öll eru Evrópusambandslönd, finnum við alls kyns mismunandi möguleika og útfærslur á því hvernig matvælaeftirlitinu er háttað. Þannig eru ýmsar kjötvinnslur bæði í Bretlandi og Svíþjóð sem heyra undir eftirlit sveitarfélaganna en allar stærstu kjötvinnslur, kjötstykkjunarstöðvar og slíkt, sem eru auðvitað margsinnis stærri en litlar kjötvinnslur á Íslandi, heyra undir eftirlit opinbers ríkisapparats í viðeigandi löndum. Það virðist því vera að í þessum löndum, bæði Svíþjóð og Bretlandi, geti menn komist upp með að uppfylla tilskipun Evrópusambandsins með allt öðrum hætti en í löndum sem standa utan Evrópusambandsins, þ.e. Noregi og Íslandi. Það er kannski rétt að minnast ýmissa annarra tilskipana þar sem við höfum gengið ansi langt á grundvelli ESA-úrskurða, þar sem við virðumst stundum gangast undir að framkvæma það sem þar stendur með þrælslund og eins og ég segi, ganga lengra og vera kaþólskari en páfinn í að framfylgja þeim tilskipunum.

Rétt er að nefna að í sumar og haust hefur ríkisstjórnin fjallað um svokallaða sóknaráætlun 20/20 sem hefur kannski lítið komið fram en öðru hverju verið nefnd. Ég hef nefnt sem dæmi að merkilegt sé að í þessu samhengi eru teknar ákvarðanir um að færa fullt af verkefnum frá sveitarfélögunum til ríkisins, hafa eina miðlæga stofnun án þess að taka tillit til þess hvað menn annars eru að gera og hvort menn séu að reyna að útbúa einhver þjónustusvæði á landsbyggðinni sem hugsanlega væri hægt að færa frekari verkefni til. Ein af þeim rökum sem m.a. eru nefnd í nefndarálitinu og ég set spurningarmerki við eru að ástæðan fyrir því að færa verkefni til Matvælastofnunar en ekki styrkja heilbrigðiseftirlitið sé að það þurfi opinberan dýralækni. Það er rétt, það er Evróputilskipunin. Ástæðan fyrir því að það sé flutt til Matvælastofnunar sé að þar séu dýralæknar en ekki hjá heilbrigðiseftirliti sveitarfélaganna, sem er reyndar ekki rétt. Þar eru þónokkrir aðilar og nokkrir af þeim eru meira að segja framkvæmdastjórar þannig að það mættu þá vera aðstoðarmenn í matvælaeftirlitinu undir yfirstjórn þeirra dýralækna. Hins vegar, ef við værum að velta þessari sóknaráætlun 20/20 fyrir okkur og fara að byggja upp þjónustustöðvar, mætti alveg velta því fyrir sér að menn vildu hafa öflugt eftirlit, hvort sem það væri í höndum ríkis eða sveitarfélaga, og þar með mundu menn ráða eftirlitsdýralækna inn á þær stofnanir. Þarna er ekki það mikið á milli. Menn taka þetta verkefni bara út af fyrir sig og breyta þessu í til að mynda sex umdæmi. Til dæmis getum við nefnt að bæði skattstofur og heilsugæslur eru með allt aðra skiptingu á landinu. Það er því skortur á heildarhugsun í þessu sambandi. Mér finnst rétt að fram komi að það mætti alveg hugsa sér að gera þetta með öðrum hætti.

Engu að síður náðist ákveðið samkomulag um að nefndin teldi rétt að gerð væri sú breyting á frumvarpinu að Matvælastofnun og heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga væri heimilt að semja sín á milli um eftirlitsverkefni. Við slíka samninga verður að gera ráð fyrir að gjaldskrár haldist óbreyttar til að tryggja hagsmuni eftirlitsaðila. Verði verkefnið flutt milli eftirlitsaðila er gert ráð fyrir að viðkomandi aðili geti beitt þvingunarúrræðum. Það er mjög mikilvægt að nefndin leggi til að ráðherra setji reglugerð í samráði við Matvælastofnun og heilbrigðiseftirlitssvæðin um framsal eftirlits vegna kjötvinnslu á grundvelli 14. gr. frumvarpsins og það sé því ráðherra sem móti þær reglur en ekki annar eftirlitsaðilinn á kostnað hins. Þetta er afar mikilvægt.

Rétt er að ítreka það líka, og ég vil gera það úr ræðustóli, að í ljósi umfjöllunar um framsal eftirlits vill nefndin árétta að meginmarkmið með slíku framsali á að vera hagkvæmni þess og skilvirkni þannig að hagkvæmasti kosturinn hverju sinni sé valinn. Þess vegna er nauðsynlegt að meta hvort framsal sé fjárhagslega hagkvæmt fyrir hlutaðeigandi aðila, eftirlitsþola, ríki og sveitarfélög og það verður auðvitað að taka tillit til þeirra allra. Ég mun í nefndinni eftir 2. umr. leggja til að við styrkjum þennan texta með tillögu sem ég var búinn að nefna við lok 2. umr. og var að vonast til að yrði sett með skýrari hætti inn í greinargerðina. Við 3. umr. vil ég ganga skýrar fram til að skýra þennan mun, þetta framsal og með hvaða hætti það verði sem sterkast.

Að lokum vil ég nefna að þetta frumvarp hefur ekki verið kostnaðarmetið gagnvart sveitarfélögunum og það er bagalegt. Allra síðast ítreka ég þakkir til formanns nefndarinnar og nefndarritaranna fyrir gott samstarf.