138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

lax- og silungsveiði.

165. mál
[17:57]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Við fjöllum hér um mikilvægt mál, eins og komið hefur fram hjá hv. þingmönnum, sem lætur kannski afar lítið yfir sér, er aðeins þrjár greinar. En það getur líka verið erfitt að setja saman stutt frumvörp og vanda þarf vinnu við þau eins og öll önnur, ekki síður. Það er kannski gaman frá því að segja að í þessu máli, eins og komið hefur fram í ágætri framsögu hv. varaformanns sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, Ólínu Þorvarðardóttur, og í framsögu hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar, var hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd samstiga í því að afgreiða frumvarpið án allra fyrirvara. Einnig er rétt að geta þess að þær umsagnir sem bárust, frá Landssambandi veiðifélaga, Fiskistofu, Veiðimálastofnun og Landssambandi landeigenda á Íslandi, voru meira og minna samhljóða, þ.e. allir voru sammála því að frumvarpið yrði að lögum.

Innihaldi frumvarpsins hafa verið gerð ágæt skil og lítið sem ég get við það bætt. En þó er það þannig að þarna er verið að laga og leiðrétta einhvern „lapsus“ sem varð á afar góðum lögum. Í frumvarpinu sem lagt var fram fyrr í haust var sagt að þessi lög hefðu verið lengi í smíðum og þættu hið ágætasta lagaverk. Engu að síður var þessi „lapsus“ á að eyðijarðir duttu fyrir borð, duttu út úr lagatextanum með vísan í eldri lög og þurfti að skilgreina það upp á nýtt að eyðijarðir hefðu hér atkvæðisrétt.

Búið er að fara ágætlega yfir það og það er gert í frumvarpinu, þar sem eru athugasemdir um 1. gr., um atkvæðisrétt í veiðifélagi og um ákvæði gildandi lax- og silungsveiða varðandi atkvæðisrétt, þ.e. um ábúðarrétt, eyðijarðir, lögbýli og slíka hluti. Það er ákaflega mikilvægt þar sem talsverðir fjárhagslegir hagsmunir geta komið upp. Það er mikilvægt að enginn vafi sé á því hvernig fara skuli með þennan rétt og þennan atkvæðisrétt.

Í nefndarálitinu er einnig farið nokkuð ítarlega yfir þessa hluti. Þar segir, með leyfi forseta:

„Hugtakið lögbýli var ekki skilgreint í jarðalögum, nr. 65/1976. Um skilning á því verður að leita til 1. gr. ábúðarlaga, nr. 64/1976. Efnislega er þar kveðið á um að lögunum nefnist jörð eða lögbýli hvert það býli sem sérstaklega er metið til verðs í fasteignamati með tilgreind og ákveðin merki, nauðsynlegan húsakost og landrými eða aðstöðu til að framfleyta minnst 10 kúgildum.“

Það er ágætt að þetta komi fram þar sem lögbýlum hefur fjölgað gríðarlega á undanförnum árum, eins og kom fram í ágætri ræðu hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar. Við sem unnum að skipulagsmálum í sveitarfélögum, á svæðum þar sem eftirsótt var að kaupa sér landskika, höfðum það á tilfinningunni á tímabili að nauðsynlegt væri að hver Íslendingur ætti eitt lögbýli samhliða því að eiga einn jeppa. Ég veit ekki hvort þetta var svona „2007-eitthvað“ en niðurstaðan er alla vega sú að lögbýlum fjölgaði gríðarlega á landinu og hugsanlega gæti afleiðingin orðið sú að upp komi nýr ágreiningur um atkvæðisrétt er varðar lax- og silungsveiði, bæði við ár og vötn. Það er því mjög mikilvægt að skilgreina með skýrum hætti hvað við er átt. Það er ágætlega gert í lögunum og í textanum með frumvarpinu og eins í nefndarálitinu.

Ég held kannski að ég geti litlu við það bætt sem komið hefur fram hjá hv. þingmönnum, en ítreka það að hér er sem sagt um leiðréttingu að ræða, verið að lagfæra góð lög, og sýnir það kannski að við þurfum hér á þinginu að vanda okkur sem mest við getum, en forðast að flýta okkur. Smávægileg mistök kosta það að taka þarf lög upp og fara með þau í gegnum þann þunga feril sem það er sannarlega, og á að vera, að breyta lögum, það tekur bæði tíma og kostar fjármuni.

Hinn hlutinn í þessu frumvarpi snerti sem sagt 2. gr. laganna sem fjallaði um að það yrði refsivert að fara í ár eða vötn án tilskilinna leyfa. Það er rétt að ítreka að mjög mikilvægt er að slíkt refsiákvæði sé fyrir hendi, þar sem það getur annars vegar valdið verulegu tjóni að standa fyrir slíku og eins er það oft og tíðum nauðsynlegt fyrir eftirlitsaðila að hafa eitthvað í höndunum annað en að segja bara að það sé bannað, að það sé nauðsynlegt, að það sé refsivert og um það gildi einhver ákvæði.

Nefndin lauk málinu með því að leggja til að frumvarpið verði samþykkt og vil ég ítreka stuðning okkar framsóknarmanna við það að þannig verði staðið að málum.