138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[21:25]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Við erum ekki að ræða neitt lítinn samning eða eitthvað slíkt, við erum að ræða lagafrumvarp sem liggur fyrir Alþingi Íslendinga, um undanþágu fyrir ákveðið fyrirtæki samkvæmt lögum, það er hvorki meira né minna.

Ef hæstv. iðnaðarráðherra ætlar að setja rammalöggjöf um erlendar fjárfestingar á Íslandi þá er hann í rauninni að segja að umhverfi íslenskra iðnfyrirtækja sé ekki nógu gott, það sé ekki samkeppnishæft við það sem er erlendis. Hann er bara að viðurkenna það. Þessa dagana erum við að samþykkja stórlegar skattálögur á íslensk fyrirtæki, þar á meðal tryggingagjald og annað slíkt, sem gerir þeim erfitt fyrir, og svo ætlar hæstv. ráðherra að fara að búa til rammalöggjöf fyrir erlenda fjárfestingu til að fá þá til að koma inn í þetta ómögulega umhverfi sem við erum að byggja upp hérna. Það er greinilegt að eitthvað er að umhverfinu þegar semja þarf við menn um sérstakar reglur í skattalegu tilliti.