138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

lyfjalög.

321. mál
[22:41]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þuríði Backman fyrir ræðu hennar. Það er skemmst frá því að segja að við í stjórnarandstöðunni liðkuðum fyrir þessu máli, sem er frestunarmál, í nefndinni og erum alveg sátt við að vinna það með þessum hætti. Það er afskaplega mikilvægt að við höldum því til haga að afstaða okkar er að klára eigi það verk sem var byrjað á árið 2007 og við unnum að þar til ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingar hætti samstarfi. Þetta var ekki bara afstaða okkar heldur afstaða held ég allra sem komu fyrir nefndina, ég man ekki eftir einum einasta umsagnaraðila sem minntist ekki bara á það heldur fór líka fram á að það yrði gert. Nefnd undir forustu hv. þm. Péturs Blöndals og hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur hafði það verkefni að endurskoða endurgreiðslukerfi lyfja og annarrar heilbrigðisþjónustu með það að markmiði að setja hámark fyrir þá aðila sem þurfa mikið á þjónustunni að halda. Það er mjög bagalegt, virðulegi forseti, að sú vinna skuli hafa verið hafi verið stöðvuð og sett í salt.

Lyfjamarkaðurinn er bara einn angi af þessu, því margs konar gjöld eru í heilbrigðiskerfinu. Það er ekki gott að sjá hver reglan er í þessum gjöldum, ef svo má að orði komast, þau virðast vera mjög tilviljanakennd og svo sannarlega ekki sanngjörn.

Virðulegi forseti. Bara til að menn átti sig á stöðunni á lyfjamarkaðnum þá vil ég lesa ákveðna kafla úr ályktun ASÍ. Þetta er mjög góð ályktun og lýsandi fyrir lyfjamarkaðinn. Margir telja afsláttarfyrirkomulagið sem er til staðar núna vera hag neytenda, en því miður er það ekki svo. Við vildum hins vegar ekki breyta yfir eða taka af afslættina í smásölunni, fyrr en að við værum komin með nýtt endurgreiðslukerfi, þannig að ekkert félli milli skips og bryggju, en afsláttarkerfið er ekki skipulagt með hagsmuni þeirra sem þurfa á lyfjum að halda í huga, það er ekki þess vegna sem það er til orðið. Ég ætla að lesa, með leyfi forseta, nokkra hluta úr þessari ályktun, sem er bæði fræðandi og góð:

„Núverandi afsláttarkerfi lyfsala á smásölumarkaði er flókið og ógagnsætt og í reynd er ógerningur fyrir neytendur að afla sér upplýsinga um endanlegt söluverð lyfja hjá einstaka söluaðilum nema með miklum tilkostnaði og fyrirhöfn. Það er grundvallaratriði á lyfjamarkaði, eins og öðrum mörkuðum þar sem samkeppni á að ríkja, að neytendur hafi tækifæri til þess að gera verðsamanburð á þeirri vöru sem þeir hyggjast versla. Svo er hins vegar ekki á markaði með lyfseðilskyld lyf. Þar verða neytendur að sætta sig við að endanlegt söluverð ráðist hverju sinni af tilviljanakenndu afsláttarkerfi lyfsalans.“

Síðan segir:

„Núverandi afsláttarkerfi hefur einnig gefið lyfjabúðum sem starfræktar eru innan sömu keðju færi á að selja lyf á mismunandi verði milli sölustaða. Þannig er mögulegt að selja lyf á hærra verði á stöðum þar sem lítil eða enginn samkeppni er nærri en lækka verð á þeim útsölustöðum þar sem samkeppni er fyrir hendi. Í þessu kerfi geta markaðsráðandi aðilar í krafti stærðar sinnar lækkað verð á lyfjum á einum tilteknum útsölustað í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að nýir aðilar komist inn á markaðinn eða til að ýta minni aðilum sem fyrir eru út af markaði og dregið þannig úr samkeppni.“

Í síðustu málsgreininni segir:

„Á árunum 2007 og 2008 fór fram mikil vinna í nefnd á vegum heilbrigðisráðherra við endurskoðun á greiðsluþátttöku sjúklinga í lyfjum og annarri heilbrigðisþjónustu sem vonir stóðu til að skilaði sér í endurbættu heildstæðu greiðsluþátttökukerfi. Á vettvangi Alþýðusambandsins hefur margoft verið ályktað um nauðsyn þess að taka til heildstæðrar endurskoðunar kostnaðarþátttöku sjúklinga innan heilbrigðiskerfisins og tryggja aðgengi allra að þjónustu og lyfjum óháð efnahag og búsetu. Í því miði er nauðsynlegt að setja hámark á þátttöku sjúklinga í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu og lyfja. Sú afstaða sem fram kemur í athugasemdum við umrætt lagafrumvarp sem nú liggur fyrir Alþingi, um að óljóst sé hvort og hvenær nýtt greiðsluþátttökukerfi verði að veruleika, veldur því miklum vonbrigðum og gefur tilefni til þess að ætla að ekki eigi að nýta þá vinna sem þegar hefur verið unnin til þess að ljúka verkefninu.“

Hér koma fram áhyggjur ASÍ og ég fullyrði, virðulegi forseti, að þessar áhyggjur komu fram hjá hverjum einasta umsagnaraðila. Því lengri tími sem líður frá því að hæstv. heilbrigðisráðherra setti þessa vinnu í salt, því meiri líkur eru á að hún nýtist ekki. Frá því ég hætti sem heilbrigðisráðherra hefur ekkert gerst. Nefndin var lögð niður og ekkert kom í staðinn.

Í frumvarpinu, sem kom frá hæstv. heilbrigðisráðherra, átti að leggja þessa grein af. Það átti ekki að fresta þessu. Ég vil þakka hv. þm. Þuríði Backman, formanni heilbrigðisnefndar, og öðrum hv. nefndarmönnum í stjórnarmeirihlutanum fyrir að leggjast á sveif með okkur og fara ekki þá leið heldur fresta gildistökunni þannig að við setjum pressu á okkur og í rauninni ráðherrann líka að klára þetta kerfi. Það væri gott ef hæstv. ráðherra sem var hér áðan væri hér og segði hvort ekki eigi örugglega að fara í þessa vinnu. Ég held að vel væri við hæfi, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherra lýsti því yfir hér í þinginu, vegna þess að mjög er beðið eftir því að þessi vinna fari aftur af stað og klárist.

Í frumvarpinu, sem hæstv. heilbrigðisráðherra flutti hér fyrir nokkrum vikum, sagði því miður að óvíst væri hvort nýtt kerfi kæmi til framkvæmda. Þá hringdu viðvörunarbjöllur hjá þeim sem eiga hagsmuna að gæta, og þá er ég að vísa til sjúklingasamtaka og annarra sem kaupa lyf.

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka hv. formanni Þuríði Backman og öðrum hv. nefndarmönnum meiri hlutans fyrir að vera með okkur í því að sveigja þetta af og ég skil það sem svo að algjör samstaða sé meðal heilbrigðisnefndar að ganga í að klára endurgreiðslukerfið. Ég vildi gjarnan heyra frá hæstv. ráðherra hvað hann hyggst gera, hvernig vinnulagið skuli vera og hvort ekki sé örugglega rétt skilið að farið verði í þessa vinnu. Ekki er eftir neinu að bíða, virðulegi forseti, að upplýsa þingið um hvernig sú vinna verður, áður komu að málinu allir stjórnmálaflokkar og ég held flest þau hagsmunasamtök sem tengdust því. Ég tel að það sé skynsamlegt vinnulag, þótt það taki auðvitað tíma. En þetta er gríðarlega stórt mál og tengist þessu frumvarpi beint og gaman væri að heyra hvað hæstv. ráðherra ætlar að gera í þessu máli.