138. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2009.

störf þingsins.

[10:38]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að beina þessari fyrirspurn til mín. Vissulega er fjöldinn allur af sveitarfélögum í verulegum vanda staddur um þessar mundir. Ég þekki hins vegar til þess að á vegum sveitarstjórnaráðuneytisins hefur farið fram mikil vinna, boðað hefur verið til aukins samstarfs með Sambandi íslenskra sveitarfélaga síðasta eina og hálfa árið enda ekki vanþörf á. Það er líka mjög athyglisvert í þessu ljósi hversu stór hluti sveitarfélaga hefur stóran hluta, ef ekki meiri hluta, tekna sinna úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

Ég tel fulla þörf á því að fara vel yfir þessa stöðu. Ekki einungis eru sveitarfélög víðs vegar um landið í vanda stödd, hafnir eru víða komnar í verulegan vanda og allt hnígur þetta á endanum að því að í mörgum tilfellum er um að ræða mjög óhagkvæmar rekstrareiningar, svo ég leyfi mér að nota það leiðinlega orð í ræðustóli. Þetta eru einfaldlega það fámenn sveitarfélög að þau ráða ekki við að halda uppi viðunandi þjónustustigi. Ég held að það sé rót vandans í þessum efnum og það þurfi fyrst og fremst að ráðast á hann.