138. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög.

70. mál
[11:41]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. framsögumanni viðskiptanefndar framsöguna. Hér er tekið á ýmsum ágætum málum en meginmálið ekki snert. Ég vil spyrja hv. þingmann hvernig gangi að byggja upp traust á áhættufé yfirleitt.

Í hruninu var það sennilega áhættuféð sem varð fyrir mestu áfalli. Sennilega hafa tapast svona 70, 80, 90% af áhættufé á Íslandi og síðan þá hafa komið í ljós dæmi um að hlutafélög væru að lána til stórra eigenda sinna, að hlutafélög væru að kaupa í stórum eigendum. Gagnkvæmt eignarhald og raðeignarhald hefur komið í ljós í stórum stíl og til að koma þessu í gegn er eignarhaldið falið á Tortóla og víða úti um heim. Á þessu öllu saman er ekki tekið. Ég tel mjög brýnt og ætla að spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála mér í því að ef menn ætla yfirleitt að selja áhættufé til almennings aftur þurfi að byggja upp traust og koma í veg fyrir þá hringi sem menn mynduðu með fjármagn.

Ég flutti þingsályktunartillögu í tvígang í vor um að hv. viðskiptanefnd tæki þetta mál sérstaklega upp. Ég tel mjög brýnt — og það þarf að vinnast mjög hratt — að byggja upp traust á verðbréfamörkuðum. Ég vil spyrja hv. formann nefndarinnar hvort nefndin sé ekki að huga að því að koma með breytingar á lögum til að koma í veg fyrir þetta sem ég nefndi og til að byggja upp traust, en án þess verða ekki seld hlutabréf hér á Íslandi.